Flýtilyklar
Níu leikmenn framlengja við KA/Þór
Níu leikmenn framlengdu á dögunum samning sinn við KA/Þór í handboltanum en liðið er eins og flestir ættu að vita Deildarmeistari og leiðir 1-0 í einvíginu um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn. Það er þó alveg ljóst að við viljum meira og algjört lykilskref að halda áfram okkar öflugu leikmönnum innan okkar raða.
Rakel Sara Elvarsdóttir er 18 ára hægri hornamaður sem er þrátt fyrir ungan aldur búin að vera lykilmaður í liðinu undanfarin þrjú ár. Rakel Sara er gríðarlega öflug og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína en hún hefur skorað 79 mörk í vetur. Hún er fastamaður í yngrilandsliðum Íslands og fer á Evrópumótið í Makedóníu með U19 í sumar.
Hulda Bryndís Tryggvadóttir er 24 ára gömul og getur bæði leikið sem leikstjórnandi og skytta. Hulda er sterkur spilari og yfirveguð auk þess að vera frábær gegnumbrotsmaður. Hún hefur skorað 49 mörk í vetur auk þess að eiga fjölmargar stoðsendingar.
Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir er 22 ára gömul og spilar í vinstra horni. Kristín hefur bætt sig gríðarlega í vetur og er í dag aðalvinstri hornamaður liðsins. Það býr mikill karakter í Kristínu og verður áfram spennandi að fylgjast með framgöngu hennar en hún hefur gert 17 mörk í vetur.
Arna Valgerður Erlingsdóttir er þrítug og getur bæði leikið sem leikstjórnandi og skytta. Arna sem fékk ung að árum tækifæri með A-landsliði Íslands hefur í gegnum tíðina þurft að berjast við afar erfið meiðsli en Arna gefst aldrei upp og gefur sig alla fyrir liðið.
Anna Marý Jónsdóttir er 19 ára gömul og er leikstjórnandi. Anna Marý er lykilleikmaður í unglingaflokki KA/Þórs sem fór meðal annars í bikarúrslit á síðustu leiktíð og þá er hún í U19 ára landsliðinu sem leikur á Evrópumótinu í Makedóníu í sumar. Þá hefur Anna nýtt tækifærin með meistaraflokki vel og á klárlega framtíðina fyrir sér.
Telma Lísa Elmarsdóttir verður 19 ára gömul seinna í mánuðinum og er skytta. Telma er í lykilhlutverki í unglingaflokki KA/Þórs og hefur verið í æfingahópum yngrilandsliða undanfarin ár. Telma hefur nýtt tækifærin með meistaraflokk vel og verður spennandi að fylgjast áfram með framgöngu hennar.
Júlía Sóley Björnsdóttir verður 18 ára í sumar og er línumaður. Júlía er í U19 ára landsliði Íslands sem fer á Evrópumeistaramótið í Makedóníu í sumar og hefur staðið sig frábærlega með unglingaliði KA/Þórs í vetur. Þá er hún einnig öflug í vörn og á klárlega framtíðina fyrir sér.
Hildur Lilja Jónsdóttir er 17 ára gömul hægri skytta sem hefur spilað af krafti með unglingaflokk og var þrátt fyrir ungan aldur í stóru hlutverki er liðið fór í bikarúrslit á síðustu leiktíð. Þá hefur hún einnig fengið verðskuldað tækifæri með meistaraflokki og verður spennandi að fylgjast með framgöngu hennar á vellinum en hún hefur einnig verið viðloðandi yngrilandslið Íslands.
Sunna Katrín Hreinsdóttir er 18 ára gömul og leikur í vinstra horni. Sunna hefur bætt sig jafnt og þétt og þá sérstaklega í vetur og hefur í kjölfarið fengið flott tækifæri með meistaraflokk auk þess sem hún er í lykilhlutverki í unglingaflokki KA/Þórs.