Flýtilyklar
Myndaveisla er KA/Þór tók forystuna
KA/Þór tók á móti Val í fyrsta leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í KA-Heimilinu í gær í spennuþrungnum leik. Stemningin sem myndaðist í KA-Heimilinu var magnþrungin og átti klárlega stóran þátt í því að stelpurnar unnu 24-21 og geta nú hampað titlinum með sigri fyrir sunnan á sunnudaginn.
Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á svæðinu og býður til myndaveislu frá herlegheitunum og kunnum við honum bestu þakkir fyrir framtakið.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum
Stelpurnar okkar sýndu enn og aftur að þær eru hvergi bangnar og halda áfram að skrifa handboltasöguna. Valur leiddi leikinn lengst af með einu til tveimur mörkum en alltaf héldu stelpurnar áfram og um miðbik síðari hálfleiks sneru þær leiknum sér ívil.
Fimm mörk í röð breyttu stöðunni úr 15-17 yfir í 20-17 og eftir það litu þær aldrei um öxl. Varnarleikurinn var frábær og þar fyrir aftan átti Matea Lonac stórleik. Auk þess spiluðu stelpurnar afar yfirvegaðan sóknarleik og gerðu fá mistök. Valsliðið sem vill yfirleitt keyra yfir andstæðinga sína fékk því fá færi á að refsa í bakið og 24-21 sigur að lokum staðreynd.
Vinna þarf tvo leiki til að hampa Íslandsmeistaratitlinum og því geta stelpurnar klárað dæmið á sunnudaginn í Valsheimilinu klukkan 15:45. Við bjóðum upp á fría hópferð á leikinn, endilega kynnið ykkur málið hér.
Ef Valur vinnur á sunnudaginn verður hinsvegar hreinn úrslitaleikur um titilinn í KA-Heimilinu á miðvikudaginn en okkar lið er að sjálfsögðu staðráðið í því að klára þetta á sunnudaginn!