Myndaveisla er KA fór áfram í Bikarnum

Blak
Myndaveisla er KA fór áfram í Bikarnum
Stelpurnar geta varið titilinn (mynd Egill Bjarni)

KA tók á móti Þrótti Neskaupstað í 8-liða úrslitum Kjörísbikars kvenna í blaki í KA-Heimilinu í gær. Úrslitahelgin í bikarnum þar sem undanúrslitin og úrslitaleikirnir fara fram er klárlega stóra stundin í íslenska blakheiminum og ljóst að ekkert lið vill missa af þeirri veislu.

KA er ríkjandi Bikarmeistari eftir sigur í keppninni árið 2019 en úrslitahelgin var felld niður í fyrra vegna Covid veirunnar. Stelpurnar okkar eru staðráðnar í að verja titilinn í ár en gestirnir að austan mættu hvergi bangnar í leikinn þrátt fyrir að töluverður munur væri á liðunum í deildarkeppninni.

Stelpurnar byrjuðu leikinn af krafti og komust í 5-1 en Þróttur svaraði með 1-8 kafla og komst í 6-9. Áfram voru sveiflur í hrinunni, KA jafnaði en gestunum tókst að verja forystuna og leiddu 20-21 fyrir lokakaflann. Þá tókst KA liðinu að snúa dæminu við, gerði fjögur stig í röð og kláraði loks hrinuna með 25-22 sigri.

Hrina 1

Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á leiknum og býður til myndaveislu frá leiknum. Þökkum honum kærlega fyrir framtakið.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Aftur byrjaði KA liðið betur í upphafi annarrar hrinu og komst í 6-1 og 8-2 forystu. Þrátt fyrir ágætistilraunir tókst Þrótti aldrei að brúa bilið, minnstur var munurinn 12-10 en þá stungu stelpurnar okkar af og komust í 20-12. Það var því aldrei spurning hvoru megin sigurinn í hrinunni myndi enda og KA vann að lokum 25-15 sigur og komið í 2-0 samanlagt.

Hrina 2

Þarna héldu flestir að björninn væri unnin en gestirnir bitu frá sér og mikil spenna einkenndi þriðju hrinuna. Liðin skiptust á að leiða og mátti vart sjá hvoru meginn sigurinn myndi enda. Góður kafli Þróttar kom þeim í 18-22 og 20-23 en aftur sýndu stelpurnar flottan karakter og knúðu fram upphækkun í 24-24. Þær gerðu gott betur og komust í 25-24 en komust ekki lengra og Þróttur vann 25-27 með síðustu þremur stigunum.

Hrina 3

Það þurfti því að leika fjórðu hrinuna og þar lék lið Þróttar við hvurn sinn fingur. Þær spiluðu frábæran varnarleik og virtist á löngum köflum sem KA liðið hreinlega gæti ekki sótt sér stig. Gestirnir unnu að lokum sannfærandi 18-25 sigur og komu leiknum þar með í oddahrinu. Augnablikið virtist vera með Austfirðingum eftir fjórðu hrinuna og datt stemningin aðeins niður í KA-Heimilinu.

Hrina 4

En eins og svo oft áður þá svaraði KA liðið kallinu, gerði fyrstu þrjú stig oddahrinunnar og tók frumkvæðið. KA leiddi 8-5 er liðin skiptu um vallarhelming og hélt áfram að spila flottan leik þegar mest reyndi á. KA komst í 14-7, eftir það var ekki snúið og 15-9 sigur KA þar með staðreynd og samanlagt 3-2.

Hrina 5

Stelpurnar verða þar með í pottinum þegar dregið verður í undanúrslit Kjörísbikarsins en HK og Afturelding hafa einnig tryggt sér sæti í úrslitahelginni.

Mireia Orozco var stigahæst með 21 stig og þær Paula del Olmo Gomez og Gígja Guðnadóttir gerðu 14 stig hvor. Jóna Margrét Arnarsdóttir gerði 9 stig en hún gerði alls 7 ása í leiknum sem er ótrúleg tölfræði en KA liðið í heildina gerði 20 ása sem er ekki eitthvað sem maður sér á hverjum degi. Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir gerði 6 stig og þær Sigdís Lind Sigurðardóttir og Heiðbrá Björgvinsdóttir gerðu 3 stig hvor.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is