Marcus Rättel til liðs við KA

Handbolti
Marcus Rättel til liðs við KA
Halli og Marcus spenntir fyrir komandi vetri

Handknattleikslið KA hefur borist góður liðsstyrkur fyrir komandi átök en Marcus Rättel hefur skrifað undir samning hjá félaginu. Marcus er 19 ára gamall örvhentur leikmaður sem kemur frá Eistlandi.

Marcus gengur í raðir KA frá eistneska liðinu SK Tapa sem leikur í efstu deild. Fyrir hjá félaginu er Ott Varik sem einnig kemur frá Eistlandi og er örvhentur en Ott stóð sig ákaflega vel á sínu fyrsta tímabili með liðinu í fyrra þar sem hann gerði 115 mörk í alls 27 leikjum.

Koma Marcus í KA eykur breiddina hægra megin á vellinum en á síðustu leiktíð voru þeir Ott og Einar Rafn Eiðsson einu örvhentu leikmenn liðsins. Þeir stóðu þó heldur betur fyrir sínu en Einar Rafn var markakóngur efstudeildar annað árið í röð en hann gerði 178 mörk í 27 leikjum og Ott var næstmarkahæsti leikmaður liðsins.

Það mun klárlega aðstoða hinn unga Marcus að aðlagast nýju umhverfi að hafa Ott bókstaflega í sínu horni og hlökkum við mikið til að sjá hvernig Marcus kemur inn í okkar unga og efnilega lið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is