Flýtilyklar
KA fyrst liða í Meistaradeild Evrópu
KA varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrsta skiptið árið 1997 og fékk fyrir vikið þátttökurétt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu tímabilið 1997-1998. Þar voru mótherjar KA liðsins Litháensku meistararnir í liði Granitas Kaunas en ekkert íslenskt lið hafði komist inn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Miklar breytingar höfðu orðið á liði KA sem hampaði titlinum en Atli Hilmarsson tók við liðinu um sumarið af Alfreð Gíslasyni. Róbert Julian Duranona, Sergei Ziza, Guðmundur Arnar Jónsson, Jakob Jónsson og Heiðmar Felixson höfðu allir yfirgefið liðið og var því röðin komin að yngri leikmönnum KA að taka við keflinu.
Liðið styrkti sig þó með tveimur erlendum leikmönnum en það voru þeir Karim Yala og Vladimir Goldin. Yala hafði vakið mikla athygli með framgöngu sinni með Alsírska landsliðinu gegn Íslandi á HM í Kumamoto árið 1997. Hann þótti ákaflega leikinn, snöggur og skemmtilegur sóknarmaður en skorti líkamlegan styrk til að standa vörnina af fullum krafti.
Vandræði voru hinsvegar með Goldin en hann var kallaður í herþjónustu Hvít-Rússa skömmu eftir að skrifa undir hjá KA. Það leit því út fyrir að hann myndi ekki leika með KA og spilaði því Evrópuleik með SKA Minsk. Í lok október tókst þó að losa flækjuna en það þýddi að hann var ekki gjaldgengur með KA í Evrópukeppni og munaði um minna enda stór og sterkur leikmaður bæði í vörn og sókn.
Leó Örn skorar gegn Kaunas í leik liðanna í KA-Heimilinu
Fyrri leikur liðanna fór fram í Litháen þann 5. október og var á brattan að sækja fyrir KA liðið. Heimamenn tóku yfirhöndina og leiddu 13-8 að fyrri hálfleik loknum. Ekki leið á löngu uns staðan var orðin 17-9 fyrir Kaunas og virtist sem okkar lið réði illa við hraða þeirra Litháensku. Atli Hilmarsson brá á það ráð að taka leikhlé og reyndi að hægja á leiknum.
Það tókst og smátt og smátt saxaði KA liðið á forskotið. Skömmu fyrir leikslok var munurinn kominn niður í þrjú mörk en heimamenn gerðu síðasta markið og fóru með 27-23 sigur af hólmi og höfðu því fjögurra marka forystu fyrir síðari leikinn í KA-Heimilinu. Gífurleg harka var í leiknum sem leystist nánast upp í slagsmál í lokin þar sem hnefarnir voru á lofti og fékk Leó Örn Þorleifsson meðal annars rautt spjald á sjöundu mínútu síðari hálfleiks.
Karim Yala var markahæstur hjá KA með 7 mörk, Halldór Jóhann Sigfússon 6 (þar af 3 úr vítum), Björgvin Þór Björgvinsson 3, Sævar Árnason 2, Heimir Örn Árnason 2, Jóhann Gunnar Jóhannsson 2 og Þorvaldur Þorvaldsson gerði 1 mark. Sigtryggur Albertsson og Hermann Karlsson stóðu vaktina í markinu.
Halldór Jóhann í eldlínunni gegn Litháensku meisturunum
Það var því töluverð eftirvænting fyrir heimaleik KA enda átti liðið ágætan möguleika á að tryggja sér fyrst íslenskra liða sæti í Meistaradeild Evrópu. Flott mæting var í KA-Heimilið og þeir sem mættu voru rétt eins og leikmenn liðsins tilbúnir í slaginn.
Leikurinn var jafn framan af en KA hafði þó frumkvæðið. Undir lok fyrri hálfleiks kom svo góður kafli þar sem vörnin ásamt Sigtryggi í markinu tók til sinna ráða og hreinlega lokaði á gestina. Staðan breyttist á þessum tíma úr 10-8 í 13-8 en gestirnir náðu að klóra í bakkann á síðustu mínútu hálfleiksins og bæta stöðu sína með marki og því var staðan 13-9 þegar flautað var til hálfleiks.
Lið Kaunas var atkvæðameira í upphafi síðari hálfleiks og fór um margan KA-manninn þegar staðan var orðin 15-14 fyrir KA eftir nokkurra mínútna leik. Litlu síðar fékk svo sterkasti maður Kaunas, Robertas Pauzuolis, sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald. Þetta hafði talsverð áhrif á leik gestanna, KA gekk á lagið og tók leikinn í sínar hendur og þegar 10 mínútur voru til leiksloka komust þeir í fimm marka forskot 21-16. Það var einmitt það sem þurfti til að tryggja liðinu veru í Meistaradeildinni.
Karim Yala gerði 5 mörk í heimaleiknum
KA liðið lét hinsvegar ekki staðar numið við þetta heldur jók forskot sitt jafnt og þétt og þegar upp var staðið var munurinn orðinn 9 mörk, 28-19 og sanngjarn sigur KA staðreynd. KA liðið lék vel í leiknum og var vörnin mjög sterk megnið af leiknum auk þess sem markvarsla Sigtryggs var frábær en hann varði 23 skot.
Sóknarleikurinn batnaði til muna í síðari hálfleiknum með þá Karim Yala og Halldór Jóhann í broddi fylkingar. Þá var einnig gaman að sjá einn af ungu strákum liðsins, Heimi Örn, koma inná undir lokin og skora þrjú falleg mörk. Halldór Jóhann Sigfússon var markahæstur með 7 mörk, Jóhann Gunnar Jóhannsson 6, Karim Yala 5, Leó Örn Þorleifsson 3, Björgvin Þór Björgvinsson 3, Heimir Örn Árnason 3 og Sverre Andreas Jakobsson 1 mark.
Stemningin var mikil að leik loknum enda tímamótasigur staðreynd
Draumurinn um sæti í Meistaradeild Evrópu var þar með að veruleika en ljóst var að afar kostnaðarsamt verkefni væri þó framundan og það varð svo sannarlega raunin þegar dregið hafði verið í riðla. Andstæðingar KA voru nefnilega Króatíska liðið Badel 1862 Zagreb, Slóvenska liðið Celje Pivovarna Lasko og Ítalska liðið Generali Trieste. Það biðu því löng ferðalög sem og erfiðir andstæðingar en lið Badel hafði leikið í úrslitum keppninnar á síðustu leiktíð og Celje er eitt af stórveldum handboltans.
Heimasíða KA hafði þetta að segja um dráttinn á sínum tíma: "Þetta gat ekki farið öllu verr fyrir KA, dýr ferðalög og fyrirsjáanlegt stórtap á dæminu í heild. Við þessu er þó ekkert að gera , ekki er hægt að velja sér mótherjann sjálfur.
Forsvarsmanna KA bíður mikil vinna og höfuðverkur við fjárhagshliðina, leikmanna bíða erfiðir leikir sem þeir munu örugglega læra mikið af og það eina sem við óbreyttir áfhorfendur á Akureyri getum gert og verðum að gera er að troðfylla KA-Heimilið í öllum leikjunum þrem og létta þannig róðurinn fyrir KA eins og hægt er. En mikið andsk... var þetta svekkjandi niðurstaða, eins og fyrir laxveiðimann að koma heim með þrjá marhnúta eftir að hafa eytt miklu púðri og fyrirhöfn í veiðileyfi og búnað."
Það var því á brattann að sækja fyrir hið unga lið KA sem mætti þó hvergi bangið í þetta skemmtilega verkefni. Fyrsti leikur var heimaleikur gegn Celje sem varð hörkuleikur, gestirnir leiddu 12-13 í hléinu og fóru að lokum með 23-26 sigur af hólmi. Alls ekki slæm frumraun á stóra sviðinu.
Í kjölfarið komu tveir útileikir, í Króatíu tapaði liðið 36-23 gegn Badel og í Ítalíu þurfti liðið að sætta sig við 30-24 tap. Þá var komið að heimaleiknum gegn liði Badel og eftir hörku fyrri hálfleik var staðan 11-12 en gestirnir unnu svo 23-28 sigur. Í síðasta útileiknum fékk liðið skell gegn Celje 31-18.
Sigtryggur Albertsson átti stóran þátt í fyrsta sigri KA í Meistaradeild Evrópu
KA liðið var þó staðráðið í að enda þátttöku sína á að brjóta annað blað og verða fyrst íslenskra liða til að vinna leik í Meistaradeildinni. Verkefnið var þó erfitt þar sem Generali Trieste átti enn möguleika á að fara uppúr riðlinum með sigri. Trieste hóf leikinn betur og hafði þriggja marka forystu, 4-7, um miðjan hálfleikinn. Þá fór að ganga betur í sóknarleik KA ásamt því að vörnin náði betur saman og þegar sjö mínútur voru til loka fyrri hálfleiksins hafði KA náð að vinna upp forskot gestanna í stöðunni 8-8 en staðan í hálfleik var 8-9 fyrir gestina.
KA liðið mætti ákveðið í síðari hálfleikinn og jafnaði á ný í stöðunni 11-11. Í kjölfarið kom öflugur kafli liðsins þar sem varnarleikurinn og markvarsla Sigtryggs var það öflug að gestirnir skoruðu ekki mark í 10 mínútur. KA komst því í 18-14 og útlitið ansi gott fyrir síðustu átta mínútur leiksins. Ítalirnir gáfust þó ekki upp og þeir munnkuðu muninn í 19-18, Heimir Örn Árnason skoraði er rétt rúm mínúta lifði leiks. Gestirnir minnkuðu aftur muninn en KA vann að lokum 21-19 sigur með marki Sigtryggs úr aukakasti er leiktíminn var liðinn. Karim Yala og Halldór Jóhann Sigfússon voru markahæstir með 6 mörk, Jóhann Gunnar Jóhannsson 3, Sverre Andreas Jakobsson 2, Björgvin Þór Björgvinsson 1, Hilmar Bjarnason 1, Heimir Örn Árnason 1 og Sigtryggur Albertsson 1 mark auk þess að verja 16 skot.
Mikill hiti var í leiknum og er sigur KA liðsins var í höfn trylltist lið Trieste en með tapinu var liðið úr leik. Þeir hópuðust að dómurum leiksins og áttu gæslumenn KA-Heimilisins í fullu fangi með að verja þá. Ítalirnir létu ekki staðar numið, þeir reyndu að hindra nokkra leikmenn KA liðsins að ná til búningsherbergja og loks hrinti einn leikmaður liðsins Árna Stefánssyni aðstoðarþjálfara KA liðsins. Í kjölfar þess þustu hópar leikmanna liðanna að og úr urðu talsverðar stimpingar sem voru mjög í anda leiksins sjálfs.
En KA-liðið gat verið ánægt með sína framgöngu í keppninni. Hið unga lið hafði brotið blað með þátttöku sinni sem og með að sækja sigur í keppni þeirra bestu. Til marks um styrk andstæðinga þess fóru bæði Badel og Celje í undanúrslit keppninnar þar sem þau mættust. Þar hafði Badel betur og lék því til úrslita annað árið í röð. Liðið lék reyndar til úrslita þrjú ár í röð, í öll skiptin þurfti liðið að sætta sig við tap gegn Barcelona sem vann keppnina fimm ár í röð, 1996, 1997, 1998, 1999 og 2000.