Íþróttafólk Akureyrar valið á morgun

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak

Íþróttabandalag Akureyrar stendur fyrir vali á íþróttakarli og íþróttakonu Akureyrar fyrir árið 2021 sem fer fram á morgun, fimmtudag. Vegna covid aðstæðna verður athöfnin lágstemmd og fámenn líkt og í fyrra en þetta er í 43. sinn sem framúrskarandi íþróttafólk Akureyrar er heiðrað.

Tveir fulltrúar úr röðum KA eru í hópi tíu efstu í kjöri íþróttkarls Akureyrar en það eru þeir Árni Bragi Eyjólfsson og Brynjar Ingi Bjarnason. Aðrir sem eru tilnefndir eru Baldvin Þór Magnússon (UFA), Gunnar Aðalgeir Arason (SA), Isak Stianson (SKA), Izaar Arnar Þorsteinsson (Akur), Jóhann Gunnar Finnsson (FIMAK), Lárus Ingi Antonsson (GA), Þorbergur Ingi Jónsson (UFA) og Þorlákur Sigurðsson (Nökkvi).

Árni Bragi Eyjólfsson - handbolti

Árni Bragi Eyjólfsson var besti leikmaður KA tímabilið 2020-2021 í Olísdeild karla. Hann fór fyrir liðinu sem komst í fyrsta sinn í úrslitakeppni frá því að KA hóf að leika aftur handknattleik í karlaflokki. Þá var hann valinn besti leikmaður Olísdeildar karla en Árni Bragi átti stórbrotið tímabil og má með sanni segja að hann hafi hrifið hug og hjörtu KA-manna í vetur. Árni rakaði heldur betur til sín verðlaununum á lokahófi HSÍ en hann varð markakóngur deildarinnar, var valinn besti sóknarmaður, fékk Valdimarsbikarinn og uppskar Háttvísisverðlaun HSÍ.

Brynjar Ingi Bjarnason - fótbolti

Brynjar Ingi Bjarnason er tilnefndur af knattspyrnudeild KA til Íþróttamanns KA. Brynjar Ingi er aðeins 22 ára gamall miðvörður sem lék ellefu leiki fyrir KA í sumar í efstu deild karla. Frammistaða Brynjars Inga vakti heldur betur mikla athygli en hann er virkilega góður knattspyrnumaður sem sóknarmenn annarra liða óttast. Í júlí var Brynjar Ingi Bjarnason seldur frá KA til Lecce í ítölsku B-deildinni og þaðan til Norska stórliðsins Vålerenga.

Brynjar er fyrsti KA-maðurinn síðan Þorvaldur Örlygsson var seldur, sem er seldur beint frá KA í erlent lið. Auk þess var Brynjar Ingi valinn í A-landslið karla á árinu, þar sem hann fékk óvænt tækifæri en sýndi þar gríðarlega góða leiki og er búinn að vinna sér fast sæti í byrjunarliði landsliðsins með frábærum frammistöðum. Hann lék hvorki fleiri né færri en 10 A-landsliðsleiki á árinu og skoraði tvö mörk!

Alls eru fimm fulltrúar KA, KA/Þórs og Þórs/KA á lista yfir tíu efstu í kjöri íþróttakonu Akureyrar en það eru þær Arna Sif Ásgrímsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Paula Del Olmo Gomez, Rakel Sara Elvarsdóttir og Rut Jónsdóttir. Aðrar sem eru tilnefndar eru þær Aldís Kara Bergsdóttir (SA), Andrea Ýr Ásmundsdóttir (GA), Anna María Alfreðsdóttir (Akur), Katla Björg Dagbjartsdóttir (SKA) og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (UFA).

Arna Sif Ásgrímsdóttir – fótbolti

Arna Sif stökk ung fram á sjónarsviðið með Þór/KA og varð strax algjör burðarás í vörn liðsins. Arna sem lék sína fyrstu meistaraflokksleiki sumarið 2007 hefur leikið nær alla leiki Þórs/KA síðan þá er frá eru tekin sumrin 2016 og 2017 er hún lék með Val. Hún er frábær fyrirmynd, tók snemma við fyrirliðabandinu í liði Þórs/KA og verið frábær leiðtogi í því hlutverki.

Síðustu sumur hefur liðið staðið í uppbyggingarstarfi og á Arna Sif mikinn þátt í því að liðið leikur áfram í deild. Hún hefur drifið okkar unga lið áfram og þrátt fyrir að leika í öftustu varnarlínu potað inn mikilvægum mörkum.

Karen María Sigurgeirsdóttir – fótbolti

Karen María byrjaði árið á að vera valin í æfingahóp A-landsliðsins og í kjölfarið tók hún þátt í Kjarnafæðismótinu og Lengjubikarnum með Þór/KA. Í sumar spilaði hún alla leiki Þór/KA og var markahæsti leikmaður liðsins með 5 mörk. Eftir fimm tímabil með Þór/KA ákvað Karen María loks að skipta yfir í Breiðablik. Með Breiðablik tók hún þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og mætti þar stórliðunum Real Madrid, PSG og WFC Kharkiv.

Paula del Olmo Gómez - blak

Blakdeildin tilnefnir Paulu del Olmo Gomes sem íþróttakonu KA. Paula átti frábært tímabil síðasta vetur, þar náði hún að skora flest stig í Mizuno deildinn eða 351 stig einnig var hún ein af þeim efstu í móttöku og blokk stigum. Þetta gerir Paulu að besta alhliðar leikmanni deildarinnar. Á síðasta tímabili leiddi Paula lið KA í úrslita leik Kjörísbikarsins þar sem KA endaði í 2. sæti, eftir að hafa unnið alla titla árið áður. Paula náði einnig á árinu 3. sæti á Íslandsmótinu í strandblaki. Paula er einnig frábær fyrirmynd innan sem utan vallar sem hefur laðað að fjölda iðkenda síðustu ár.

Rakel Sara Elvarsdóttir – handbolti

Rakel Sara Elvarsdóttir, aðeins 18 ára gömul, átti stórkostlegt tímabil með KA/Þór þegar hún og stöllur hennar lönduðu öllum fjórum stóru titlunum sem í boði eru, Íslands-, Bikar- og Deildarmeistarar ásamt því að verða meistarar meistaranna. Rakel vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína inná vellinum í Olísdeildinni en hún skoraði meðal annars 11 mörk úr 12 skotum í úrslitaleik við Fram um deildarmeistaratitilinn og skoraði mörg mikilvæg mörk í úrslitakeppninni gegn ÍBV og Val. Rakel var valin efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar 2021 og var valin í fyrsta sinn í A-landsliðið núna í lok nóvember. Þá fór hún fyrir góðu liði U19 ára landsliðs Íslands á EM í Makedóníu í sumar.

Rut Jónsdóttir - handbolti

Rut Jónsdóttir er lykilleikmaður í meistaraliði KA/Þór sem er handhafi allra titla sem í boði eru á Íslandi í handknattleik kvenna. Hún var valin besti leikmaður Olísdeildar kvenna en Rut kom eins og stormsveipur inn í deildina eftir 12 ára atvinnumannaferil. Rut er ekki bara stórkostlegur leikmaður heldur lyftir hún samherjum sínum einnig upp á hærra plan og er heldur betur vel að verðlaununum komin. Ekki nóg með að vera valin besti leikmaðurinn á lokahófi HSÍ þá fékk hún einnig Sigríðarbikarinn auk þess að vera valin besti sóknarmaðurinn. Rut er lykilleikmaður í íslenska A-landsliðinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is