HK hrifsaði bikarinn af KA stelpum

Blak
HK hrifsaði bikarinn af KA stelpum
Gekk ekki alveg upp í dag (mynd: BLÍ)

KA og HK mættust í úrslitaleik Kjörísbikarsins í blaki í dag en liðin mættust einmitt í síðasta úrslitaleik keppninnar sem fór fram árið 2019 og þá vann KA frábæran 3-1 sigur sem tryggði fyrsta Bikarmeistaratitil félagsins í kvennaflokki.

HK er hinsvegar með gríðarlega öflugt lið í ár og hefur einungis tapað einum leik í vetur. Það var því krefjandi verkefni sem beið okkar liðs að reyna að verja titilinn að þessu sinni en stelpurnar mættu hvergi bangnar til leiks.

KA gerði fyrstu fjögur stig leiksins og var afar gaman að sjá stemninguna í liðinu og alveg klárt að stelpurnar ætluðu að njóta þess í botn að spila á stóra sviðinu. Forskot KA hélst fyrri hluta fyrstu hrinu en um miðbik hrinunnar tókst HK að jafna í 11-11 og var jafnt á næstu tölum. HK stúlkum tókst svo að ná yfirhöndinni og unnu fyrstu hrinu á endanum 19-25.

Aftur byrjuðu stelpurnar af krafti í annarri hrinu og komust í 5-1 áður en HK svaraði með sex næstu stigum og komst í 5-7. En sveiflunum var ekki lokið og KA endurheimti forystuna í 9-7. En því miður komust stelpurnar ekki lengra og HK gekk á lagið. Komst í 10-15 og leit aldrei um öxl og hafði að lokum 16-25 sigur í hrinunni og komið í 0-2.

Það býr mikill karakter í okkar liði og stelpurnar hófu þriðju hrinu á að komast í 6-2 en rétt eins og í hinum hrinunum tókst HK að snúa dæminu sér ívil er leið á hrinuna og þær unnu að lokum ansi sannfærandi 14-25 sigur og leikinn þar með 0-3.

Það verður að viðurkennast að HK er með rosalega þétt og öflugt lið sem erfitt er við að eiga. En á sama tíma býr klárlega meira í okkar liði en stelpurnar gerðu full mikið af mistökum sem gerði HK auðveldara fyrir.

Stelpurnar munu hinsvegar læra af leiknum og koma sterkari til baka. Á sama tíma óskum við HK til hamingju með Bikarmeistaratitilinn og verður spennandi að fylgjast með baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í vor.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is