Handboltatímabilið hefst á morgun | KA/Þór mætir ÍBV og Arna Valgerður ætlar að ná því besta útúr leikmönnum

Handbolti

Handboltatímabilið hjá stelpunum í KA/Þór hefst á morgun þegar þær taka á móti ÍBV í KA-heimilinu. Arna Valgerður Erlingsdóttir stýrir liðinu í fyrsta sinn sem aðalþjálfari og er hún spennt fyrir komandi tímabili. Hún svaraði nokkrum spurningum fyrir KA.is að því tilefni.

Hvernig er stemmingin fyrir vetrinum?

Stemningin er mjög góð, við erum öll spennt fyrir því að byrja tímabilið.

Fyrsti veturinn hjá KA/Þór sem aðalþjálfari, finnuru fyrir pressu?

Nei, get ekki sagt það. Eina pressan sem ég finn kemur frá mér sjálfri og ég þarf að læra að stilla henni í hóf.

Hver eru markmið liðsins í vetur?

Markmiðin eru að vera í öruggu sæti í deildinni sem þýðir topp 6. Það gefur líka sæti í úrslitakeppni. Hins vegar vil ég frekar hugsa um frammistöðu liðsins og að ná því besta út úr leikmönnum. Ef að frammistaðan er góð þá skilar það okkur stigum í vetur, það er klárt.

Hvað verður lykilinn að velgengni hjá KA/Þór í vetur?

Samheldni og barátta. Við náum alltaf meiri árangri ef við stefnum í sömu átt og höfum gaman af því að spila handbolta. Það eru margir ungir leikmenn í liðinu sem fá rými til að gera mistök en það þarf líka að læra af þeim. Ég vil að leikmenn sýni að þeir hafi gaman af því að spila fyrir KA/Þór og berjist fyrir hverjum bolta.

Ertu ánægð með leikmannahópinn eða á að bæta við?

Ég er ánægð með hópinn eins og er og við keyrum af fullum krafti af stað, en ég veit að við styrkjumst þegar líður á tímabilið. Ungu leikmennirnir fá reynsluna og svo gæti verið að það detti inn fleiri leikmenn.

 

Hverjar eru komnar – hvaðan, hvað gamlar og hvaða stöðu spila þær

Rakel Sara Elvarsdóttir fædd 2003 – Frá Volda í Noreg, hægri hornamaður

Nathalia Fraga fædd 1995 – frá Brasilíu, spilaði síðast í Grikklandi. Jafnhent, mun spila mest hægra megin

Ungar stelpur fæddar 2005-2007 eins og Bergrós, Kristín Birta, Hildur Magnea, Selma Sól og Elena koma inn í æfingahópinn og það eru tækifæri í boði fyrir þær.

 

Hverjar eru farnar – hvert fóru þær?

Ida Hoberg fór til HSG Blomberg-Lippe í Þýskalandi

Hildur Lilja Jónsdóttir fór til Aftureldingar

Júlía Sóley í pásu

Rut Jónsdóttir fæðingarorlof

Unnur Ómarsdóttir fæðingarorlof

 

KA.is þakkar Örnu kærlega fyrir spjallið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is