Gunnar og ég í Grasagarðinum, frásögn.

Júdó
Þar sem að æskuvinur minn og eðal-KA-maðurinn Gunnar Níelsson hefur á heimasíðu júdódeildar vitnað í atburð sem átti sér stað í Grasagarðinum í Laugardal haustið 1997 þá telur sá er þetta ritar nauðsynlegt að segja frá þessum atburði til að eyða öllum misskilningi.  Frásögnin er eftirfarandi: Haustið 1997 vorum við Gunni ráðnir sem spinning kennarar í Vaxtaræktinni á Akureyri.  Að því tilefni vorum við félagar sendir til Reykjavíkur á 4 daga námskeið í þessum fræðum sem Jónína Ben stóð fyrir.  Af námskeiðinu sjálfu má segja margar sögur, t.d. hvernig líkamlegt ástand okkar félaganna var orðið eftir að sitja 8 tíma á dag á þrekhjóli í 4 daga, en best er að sleppa því.  Kennari á námskeiðinu var piltur frá Bandaríkjunum, myndardrengur.  Hann heillaði alla á námskeiðinu, sem voru að mestan part konur, en við Gunnar héldum aftur af okkur.  Kennari þessi var mjög andlega sinnaður og blandaði joga í allt sem hann gerði og þar sem að dömurnar á námskeiðinu voru alveg á hans bandi þá var hópurinn orðinn mjög andlega sinnaður, nema við Gunnar.  Á þriðja degi ákvað hann að fara með allan hópinn í gönguferð um Grasagarðinn í Laugardal til að fá orku úr náttúrunni.  Allir voru mjög spenntir fyrir þessu, líka við Gunnar, því á þessum tíma var landsleikur á Laugardalsvellinum milli Íslendinga og Íra svo við Gunnar gerðum okkur vonir um að ná kannski að lauma okkur þangað.  Hópurinn arkaði svo af stað.  Við fyrsta blóm var stöðvað og kennarinn sá til þess að allir lyktuðu að því, líka við Gunnar.  Þannig gekk þetta fyrir sig, það var stöðvað við nánast hverja einustu plöntu sem á vegi okkar varð og beðið meðan að allir fengu sinn skammt af orku.  Okkur Gunnari varð fljótlega ljóst að við myndum ekki sleppa úr þessum félagsskap til að kíkja á landsleikinn.  Er komið var á göngustíginn sem liggur í gegnum Grasagarðinn þá fylltist kennarinn mikilli andagift, því þarna meðfram stígnum vaxa þessar fínu aspir.  Fyrirmælin voru skýr, þetta væri besti orkugjafi sem í boði væri og nú ættu allir að fylla á tankinn hjá sér.  Aðferðin var sú að allir áttu að velja sér eitt tré síðan að faðma það heitt og innilega, lengi, líka við Gunnar.  Það stóð ekki á þátttakendum að faðma trén, ekki aðeins örmum heldur gjarnan fótum líka.  Við Gunnar vorum afar tregir í þessar aðfarir, enda báðir aldir þannig upp að svona gerði maður bara prívat með sinni ektakvinnu.  En við vorum skikkaðir í þetta líka hvor með sínu tré.  Og þarna stóðum við í innilegum faðmlögum við tré meðan að landsleiknum lauk og 6 þúsund manns gengu framhjá okkur.  Háðsglósurnar og athugasemdirnar sem við fengum frá þessum fjölda voru óteljandi og áttu allar vel við.  Í þeirri von að enginn myndi kannast við okkur grófum við andlitin þéttar að trénu, sem gerði stellinguna bara pínlegri.  Hvorugur okkar hefur náð að vinna sig út úr þessari misbeitingu. Trén hafa hins vegar dafnað mjög vel.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is