Frí hópferð á bikarúrslitaleik KA/Þórs!

Handbolti
Frí hópferð á bikarúrslitaleik KA/Þórs!
Ekki missa af þessum risaleik hjá stelpunum!

KA/Þór leikur til úrslita í Coca-Cola bikar kvenna á laugardaginn klukkan 13:30 í Laugardalshöllinni. Þetta verður fyrsti bikarúrslitaleikur í sögu KA/Þórs og ljóst að við þurfum öll að mæta og styðja stelpurnar til sigurs í þessum sögulega leik!

Við munum bjóða upp á fría hópferð frá KA-Heimilinu á leikinn og verður lagt af stað klukkan 7:00 um morguninn á laugardeginum. Til að tryggja sér sæti þarf að senda tölvupóst á agust@ka.is. Það er mikilvægt að bíða ekki of lengi með að tryggja sér sæti því sætafjöldinn er takmarkaður!

Heimferð yrði svo fljótlega að leik loknum.

Haukar byrjuðu leik liðanna í undanúrslitunum í kvöld betur og komust strax í 0-4. En stelpurnar okkar eru heldur betur ekki þekktar fyrir að leggja árar í bát og þær minnkuðu muninn í 4-5 og jöfnuðu loks metin í 7-7. Aftur gáfu Haukarnir í og þær leiddu 8-10 er flautað var til hálfleiks.

Byrjunin á þeim síðari var keimlík þeim fyrri, Haukarnir komust snemma fjórum mörkum yfir en í stöðunni 10-14 komu fjögur mörk í röð hjá okkar liði og í kjölfarið var jafnt á öllum tölum.

Spennan var svakaleg í Laugardalshöllinni og stemningin sem var frábær hjá okkar stuðningsmönnum fór upp í hæstu hæðir þegar stelpurnar komust loksins yfir í stöðunni 18-17 og um tíu mínútur til leiksloka. Haukarnir komust aftur yfir í 19-20 en okkar lið höndlaði spennuna undir lokin betur og vann að lokum ótrúlegan 22-21 sigur.

Stelpurnar eru því komnar í bikarúrslitaleikinn og er þetta í fyrsta sinn í sögu KA/Þórs sem liðið kemst í sjálfan úrslitaleikinn. Áður hafði liðið tvívegis komist í undanúrslit en fallið úr leik þar.

Það má búast við magnaðri veislu á laugardaginn og hvetjum við ykkur eindregið til að mæta og styðja við liðið í bikarveislunni.

Þá minnum við á að 3. flokkur kvenna á bikarúrslitaleik á föstudaginn klukkan 18:00 og 4. flokkur karla yngri á úrslitaleik á sunnudaginn klukkan 12:00. Helgin er því undirlögð af úrslitaleikjum hjá okkur!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is