Fram of stór biti í úrslitaleiknum

Handbolti
Fram of stór biti í úrslitaleiknum
Stelpurnar geta verið stoltar af silfurmedalíunni

KA/Þór lék í fyrsta skipti til úrslita í Coca-Cola bikarnum í dag er liðið mætti Fram. Fyrirfram var vitað að verkefnið yrði gríðarlega erfitt enda hefur Fram verið besta lið landsins í vetur og vann afar sannfærandi sigur á Val í sínum undanúrslitaleik.

Okkar stelpur höfðu nákvæmlega engu að tapa og mættu af krafti inn í leikinn, skoruðu fyrsta markið og spiluðu fína vörn. Staðan var jöfn 2-2 en þá geigaði víti hjá okkar liði og Framarar gerðu næstu átta mörk leiksins. Ég fullyrði að ekkert lið á landinu kemur til baka gegn Fram í þessari stöðu og því var mesta spennan úr leiknum.

Munurinn jókst enn það sem eftir lifði af fyrri hálfleiknum og staðan var 17-4 þegar flautað var til hlés. En stelpurnar okkar eru alls ekki þekktar fyrir að leggja árar í bát og þökk sé flottum stuðningi úr stúkunni sýndu þær karakter í þeim síðari og gáfu allt í leikinn.

Það var greinilegt að liðið ætlaði að njóta þess í botn að spila á stóra sviðinu og seinni hálfleikur var flottur. Að lokum unnu Framstelpur 31-18 sigur og því var jafnt í síðari hálfleik.

Vissulega er aldrei gaman að tapa úrslitaleik en niðurstaðan er engu að síður afar glæsileg og verður að viðurkennast að það er gríðarlega erfitt að halda í við Fram í 60 mínútna leik. Undirbúningurinn fyrir leikinn sem og allur dagurinn í dag var þó ákaflega skemmtilegur og ljóst að hann mun aldrei gleymast.

Við þökkum fyrir frábæran stuðning í Laugardalshöllinni í dag, þrátt fyrir að staðan hafi verið erfið heyrðist ávallt stuðningshróp okkar fólks og er það ómetanlegt. Stelpurnar gáfust aldrei upp gegn frábæru liði Fram og geta verið afar stoltar af framgöngu sinni í Coca-Cola bikarnum í ár!


Myndaveisla Þóris tryggvasonar frá leiknum


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is