Fjórum Íslandsmeistaratitlum lyft í hús

Lyftingar
Fjórum Íslandsmeistaratitlum lyft í hús
Drífa Ríkarðsdóttir í eldlínunni
KA eignaðist fjóra Íslandsmeistara í klassískum kraftlyftingum á dögunum eftir frábæra frammistöðu í glæsilegum húsakynnum Stjörnunnar. KA varð í þriðja sæti í samanlagðri stigakeppni kvenna og fjórða sæti í stigakeppni karla.
 
Drífa Ríkarðsdóttir varð Íslandsmeistari í -57 kg flokki og marbætti íslandsmet í bæði hnébeygju með og réttstöðulyfti. Drífa lyfti mest 137.5 kg í hnébeygju og 185 kg í réttstöðulyftu. Hún setti Íslandsmet í samanlögðu með 407.5 kg samanlagt. Einnig varð hún í öðru sæti á stigum samanlagt en þá eru gefin stig fyrir hverja lyftu, óháð þyngdarflokki. Sú sem varð stigahæst var Lucie Stefaniková sem keppti fyrir Stjörnuna í 84 kg flokki.

Aníta Rún Bech Kajudóttir varð Íslandsmeistari í -63 kg flokki. Hún lyfti 255 kg í samanlögðu og bætti sig bæði í bekkpressu og réttstöðulyftu. Aníta er aðeins 19 ára gömul.

Friðrik Alvin Grankvist átti mjög góðan dag og fékk allar lyftur gildar og náði þriðja sæti í -93 kg flokki með 517.5 kg í samanlögðu. Líkt og Aníta er Friðrik 19 ára.

Viktor Samúelsson varð Íslandsmeistari í 105 kg flokki og átti frábæran dag. Hann fékk allar lyftur gildar og sló fjölmörg Íslandsmet, bæði í hnébeygju, réttstöðulyftu og samanlögðu þar sem hann lyfti 818 kg. Þar að auki varð hann í öðru sæti á stigum á mótinu og varð rétt á eftir fyrsta sætinu.

Viktor var í skemmtilegu viðtali á Mbl.is sem er vert að skoða hér

Þorsteinn Ægir Óttarsson varð Íslandsmeistari í 120+ flokki þar sem hann lyfti 780 kg í samanlögðu.

Við óskum þessum glæsilegu fulltrúum KA til hamingju með Íslandsmeistaratitla og glæsilegan árangur á mótinu.

Öll úrslit mótsins má sjá hér

 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is