Veislan hefst á morgun! KA - Valur 18:00

Handbolti

Eftir langa bið er loksins komið að því að KA taki aftur þátt í úrslitakeppninni í handbolta karla. Strákarnir hefja leik á morgun, þriðjudag, gegn Val í 8-liða úrslitum. Leikið er heima og heiman og það lið sem hefur betur í leikjunum samanlagt fer áfram í undanúrslitin.

Það er því ákaflega mikilvægt að við fjölmennum og fyllum KA-Heimilið í heimaleiknum okkar og tryggjum gott veganesti fyrir seinni leikinn fyrir sunnan. Seinni leikurinn fer svo fram á föstudaginn og það er alveg klárt að okkar lið ætlar sér áfram í næstu umferð.

Það var skrifað í skýin að andstæðingar okkar yrðu Valsmenn enda hafa þessi tvö félög háð sögulega baráttu í gegnum tíðina í keppninni. Liðin mættust meðal annars í lokaúrslitunum árin 1995 og 1996 þar sem Valsmenn fóru með sigur af hólmi en þegar þau mættust í úrslitunum árið 2002 náði KA fram hefndum með ótrúlegri endurkomu sem tryggði annan Íslandsmeistaratitil félagsins í handboltanum.

Miðasalan er hafin í Stubbsappinu og því um að gera að tryggja sér miða sem allra fyrst. Áhorfendum verður skipt upp í tvö svæði, A og B svæði. Athugið að ársmiðar gilda ekki í úrslitakeppninni og þurfa því allir að kaupa stakan miða á leikinn. Gengið er inn á svæði A um aðalinngang KA-Heimilisins en inn á svæði B í gegnum Rampinn við íþróttasalinn. Sjá útskýringarmynd hér fyrir neðan.

Almenn miðasala í KA-Heimilinu hefst svo klukkan 17:00 á leikdegi. Fyrir þá sem komast ómögulega á þennan mikilvæga leik verður hann í beinni á Stöð 2 Sport. Hlökkum til að sjá ykkur og áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is