Valsarar leiða fyrir seinni leikinn (myndir)

Handbolti
Valsarar leiða fyrir seinni leikinn (myndir)
Einvígið er enn galopið (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Val í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í KA-Heimilinu í gær en liðin leika heima og heiman og fer það lið sem hefur betur samanlagt áfram í undanúrslitin. Mikil eftirvænting var fyrir leiknum enda KA loksins komið í úrslitakeppnina á ný.

Hugsanlega var eftirvæntingin hjá leikmönnum KA full mikil því strákarnir fundu ekki alveg taktinn í upphafi og misstu Valsmenn strax frá sér. Gestirnir leiddu allan fyrri hálfleikinn og voru sanngjarnt 12-15 yfir í hléinu.

Sóknarleikur KA-liðsins hikstaði svo verulega í upphafi síðari hálfleiks og Valsarar gengu á lagið. Þeir juku forskotið jafnt og þétt og útlitið var orðið heldur svart í stöðunni 18-28 og aðeins um átta mínútur til leiksloka.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

En KA liðið hefur heldur betur sýnt það og sannað í vetur að liðið gefst aldrei upp og strákarnir komu með frábært áhlaup. Þeir lokuðu vörninni auk þess sem þeim tókst loksins að brjóta öflugan varnarleik gestanna á bak aftur. KA liðið minnkaði muninn í 26-29 en á lokasekúndunum tókst Valsmönnum að skora og unnu leikinn þar með 26-30.

Vissulega svekkjandi niðurstaða en það er alveg ljóst að með þessum frábæra lokakafla komu strákarnir sér aftur inn í einvígið. Það er í raun bara hálfleikur og liðin mætast aftur á föstudaginn fyrir sunnan. Með heilsteyptari leik getum við svo sannarlega unnið seinni leikinn og við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á seinni leikinn og styðja strákana til sigurs.

Árni Bragi Eyjólfsson fór fyrir okkar liði eins og svo oft áður í vetur en hann gerði alls 15 mörk, þar af tvö úr vítaköstum. Nicholas Satchwell átti einnig góðan leik í markinu og varði 15 skot. Jón Heiðar Sigurðsson gerði 3 mörk, Jóhann Geir Sævarsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Patrekur Stefánsson 2 og þeir Jóhann Einarsson og Áki Egilsnes gerðu sitthvort markið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is