Strákarnir festust í Safamýrinni

Handbolti
Strákarnir festust í Safamýrinni
Ekki okkar dagur í dag (mynd: Egill Bjarni)

KA sótti Fram heim í 12. umferð Olísdeildar karla í handboltanum í dag en KA liðið var fyrir leikinn ósigrað í sjö síðustu leikjum og hafði unnið sig upp í 3. sæti deildarinnar. Framarar voru hinsvegar aðeins fjórum stigum fyrir aftan í 9. sætinu og því mikið undir hjá báðum liðum.

Strákarnir byrjuðu leikinn af krafti og gerðu fyrstu tvö mörk leiksins en heimamönnum tókst ekki að skora fyrr en eftir sjö mínútna leik. KA hélt frumkvæðinu fyrstu fimmtán mínútur leiksins en eftir það tóku Framarar við keflinu og leiddu mest með þremur mörkum. Staðan var 14-12 er flautað var til hálfleiks og sóknarleikurinn ekki nægilega góður að þessu sinni.

Ekki batnaði staðan í upphafi síðari hálfleiks því munurinn fór fljótlega í fimm mörk, 17-12 en þá kom góður 0-4 kafli hjá strákunum sem minnkuðu þar með muninn í eitt mark. Nær komust þeir þó ekki og aftur tókst Frömurum að skilja sig frá og lönduðu að lokum 26-22 sigri.

Það er óhætt að segja að KA liðið hafi ekki fundið sig nægilega vel í dag og kannski skiljanlegt eftir mikið leikjaálag að undanförnu. Þetta var áttundi leikur liðsins í febrúar mánuði og með mikilli vinnu höfðu strákarnir forðast tap þar til kom að leiknum í dag. Stöngin út að þessu sinni og við höldum áfram okkar vegferð en tíu umferðir eru eftir af deildinni sem er ótrúlega jöfn og spennandi.

Áki Egilsnes var markahæstur með 7 mörk, Patrekur Stefánsson gerði 5, Árni Bragi Eyjólfsson 4, Jóhann Geir Sævarsson 3, Einar Birgir Stefánsson 2 og Ragnar Snær Njálsson 1 mark. Nicholas Satchwell varði 10 skot í markinu og var með 27,8% markvörslu.

Næsti leikur KA er á föstudaginn er Selfoss mætir í KA-Heimilið og áfram heldur því álagið á þjálfara og leikmenn liðsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is