Stórkostleg dagskrá á KA-svæðinu næstu daga | Handbolti og fótbolti í forgrunni | Olís og Besta

Almennt | Fótbolti | Handbolti

Það er lífstíll að vera KA-maður segja þeir. Það er nóg um að vera hjá okkar glæsilega félagi næstu daga og þá er dagskráin á KA-svæðinu algjörlega til fyrirmyndar!

Fimmtudagur:

KA tekur á móti ÍBV í Bestu deild karla. KA er í "efsta sæti neðri hlutans" þegar þrír leikir eru eftir af deildinni. KA er búið að vinna tvo góða sigra gegn Fylki og Keflavík og ætla strákarnir ekkert að gefa þegar ÍBV kemur í heimsókn. Leikurinn er 16:15 á fimmtudag og hvetjum við fólk til þess að mæta og kíkja á næst síðasta heimaleik strákanna þetta sumarið.

Föstudagur: 

Það er handboltatvíhöfði í KA-heimilinu þegar að Stjarnan kemur í heimsókn. Kvennalið KA/Þór tekur á móti þeim kl. 18:00 og kl. 20:15 stíga KA-strákarnir á svið. Grillin verða heit alveg frá 17:30 og því tilvalið að skella sér á handboltaleiki og fá sér föstudagshamborgarann í KA-heimilinu. Hægt verður að kaupa miða sem gildir á báða leiki og fá krakkar undir 16 ára ÍS á meðan byrgðir endast. Allir á völlinn!

Fyrr um daginn, eða kl. 14:00 taka strákarnir í 3. fl karla á móti ÍA í leik sem getur tryggt KA ÍSLANDSMEISTARATITILINN. Strákarnir þurfa að ná í eitt stig í þessum lokaleik Íslandsmótsins til þess að verða meistarar. Leikurinn hefst kl. 14:00 á Greifavellinum

Handboltamót 6. fl karla og kvenna. KA og Þór halda um helgina 6. flokks mót eldra árs, fyrsta Íslandsmót vetrarins. Sjö lið frá KA og KA/Þór verða í eldlínunni á heimavelli en keppt er í Naustaskóla og Íþróttahöllinni á föstudaginn frá 19:00, KA heimilinu og Naustaskóla á laugardaginn frá 8:00-19:00 og KA-heimilinu og Íþróttahöllinni á sunnudaginn frá 8:00-13:00. Það er alltaf gaman að koma og kíkja á framtíðar-fólkið okkar spreyta sig á fyrsta móti vetrarins

Laugardagur:

Klukkan 15:00 tekur 3. fl karla B-lið á móti Breiðablik í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í B-keppni 3. flokks. Strákarnir í 3. flokki geta því orðið tvöfaldir meistarar með góðum úrslitum um helgina. 

Handboltamótið verður í fullum gangi á sama tíma, allan daginn, í KA-heimilinu og Naustaskóla.

Sunnudagur: 

2. flokkur karla tekur á móti Víking í A og B-liðum kl. 15:00 og 17:00. Þetta eru síðustu leikir okkar drengja í sumar og hafa þeir verið að keppa í fremstu röð í sumar. Þetta eru piltarnir okkar sem eru á aldrinum 16-19 ára og eru hvað næst því að taka við keflinu í meistaraflokki. Þeir spila skemmtilegan fótbolta og því alveg vel við hæfi að kíkja á Greifavöllinn á sunnudaginn og sjá framtíðina taka á móti Víking. 

Mánudagur:

Á mánudaginn fer fram stærsti handboltaleikur Grill-deildarinnar þetta árið þegar að Ungmennalið KA tekur á móti erkifjendunum í Þór. Þessi lið, sem leika í sömu deild,  gerðu jafntefli þegar þau mættust í fyrra og verður væntanlega bæði nánast fullt hús og frábær stemming á þessum leik milli KA u og aðalliði Þórs sem hefst kl. 18:00. Grillin verða hituð og hamborgarar til sölu ásamt skemmtilegum handbolta. Allir á völlinn!

Aðrar deildir eru auðvitað í fullri starfsemi og annaðhvort að æfa um helgina eða spila á útivelli! 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is