Rut og Árni Bragi best á lokahófi KA og KA/Þórs

Handbolti

Lokahóf handknattleiksdeildar KA og KA/Þórs var haldið með pompi og prakt í gær á Vitanum. Frábærum handboltavetri var þar fagnað vel og innilega þar sem Íslandsmeistaratitill KA/Þórs stóð að sjálfsögðu uppúr.

Karlalið KA getur einnig verið stolt af sínu tímabili en strákarnir stigu stórt skref áfram þegar þeir tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni og ljóst að uppbyggingarvinnan í kringum liðið er áfram í réttu og góðu ferli.

Frábærum handboltavetri er lokið og við þökkum öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í kringum liðin okkar í vetur fyrir þeirra ómetanlega framlag.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir var valin besti leikmaður KA/Þórs en innkoma hennar í liðið er ótrúleg og hefur hún lyft samherjum sínum upp á hærra plan sem kristallaðist í titlasöfnun liðsins í vetur.

Árni Bragi Eyjólfsson var valinn besti leikmaður karlaliðs KA en Árni átti stórbrotið tímabil og varð meðal annars markakóngur deildarinnar og má með sanni segja að hann hafi hrifið hug og hjörtu KA-manna í vetur.

Rakel Sara Elvarsdóttir var valin efnilegasti leikmaður KA/Þórs en hún hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína í vetur þrátt fyrir að vera einungis 18 ára gömul.

Arnór Ísak Haddsson var valinn efnilegasti leikmaður karlaliðs KA en hann hefur nýtt tækifærin með meistaraflokki vel auk þess að vera lykilmaður í ungmennaliði KA og á framtíðina fyrir sér.

Martha Hermannsdóttir var valin besti liðsfélaginn hjá KA/Þór enda gefur hún sig ávallt alla fyrir liðið.

Jón Heiðar Sigurðsson var valinn besti liðsfélaginn hjá körlunum enda frábær liðsmaður sem spilar félaga sína ávallt upp og afar vel að titlinum kominn.

Landsliðskonurnar þær Rut og Ásdís Guðmundsdóttir voru heiðraðar fyrir framgöngu sína með landsliðinu en Ásdís kom inn sem nýliði og lék sína fyrstu landsleiki í forkeppni HM. Rut er hinsvegar einn reynslumesti leikmaður liðsins með 97 landsleiki.

Þá voru fimm leikmenn kvaddir og þakkað fyrir þeirra ómetanlega framlag til liðanna undanfarin ár.

Svavar Ingi Sigmundsson eða Svabbi Kóngur eins og hann er ávallt kallaður innan félagsins er á leiðinni suður til náms og mun leika með FH á komandi tímabili. Svabbi er einstakur karakter sem hefur gefið mikið til félagsins bæði innan sem utan vallar.

Daði Jónsson varnartröll og annar fyrirliða KA liðsins heldur á vit ævintýranna í sumar og flytur til Danmerkur. Daði var fljótur að skrifa undir samning er handknattleikslið KA var endurvakið og gefur sig ávallt allan fyrir félagið.

Áki Egilsnes, Færeyingurinn knái, gengur til liðs við EHV Aue í Þýskalandi. Áki hefur verið algjör lykilpóstur í uppbyggingu KA liðsins og átt ógleymanleg fjögur tímabil með liðinu.

Árni Bragi Eyjólfsson gengur aftur í raðir Aftureldingar eftir ótrúlegt tímabil með KA. Loksins fengum við að upplifa drenginn í gula og bláa búningnum og hans framganga með liðinu bæði innan og utan vallar er ógleymanleg.

Ólöf Maren Bjarnadóttir mun leika með Haukum á komandi tímabili en þessi öflugi markvörður mun leika á EM í Makedóníu í sumar með U19 ára landsliði Íslands.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is