Óðinn markakóngur Olísdeildarinnar

Handbolti

Óðinn Þór Ríkharðsson leikmaður KA er markakóngur Olísdeildar karla þennan veturinn en hann gerði alls 149 mörk í 21 leik. Ekki nóg með að vera markakóngur deildarinnar þá var hann einnig með flest mörk að meðaltali í leik eða 7,1 mark. Óðinn er auk þess í liði ársins hjá HBStatz í hægra horni.

Þetta er annað árið í röð sem að KA á markahæsta leikmann Olísdeildar karla og ekki nóg með það að þá er Óðinn áttundi leikmaðurinn sem endar sem markakóngur efstu deildar fyrir KA. Þá átti Einar Rafn Eiðsson leikmaður KA flestar stoðsendingar að meðaltali í leik í deildinni eða 4,6 talsins.

Árni Bragi Eyjólfsson
2020-2021

Árni Bragi Eyjólfsson sneri aftur norður fyrir tímabilið 2020-2021 en hann hafði leikið með yngriflokkum félagsins áður en hann gekk til liðs við Aftureldingu. Hann spilaði gríðarlega vel í liði KA sem steig stórt skref fram á við með sæti í úrslitakeppninni og gerði Árni Bragi 163 mörk sem gera 7,4 mörk að meðaltali. Á lokahófi HSÍ var hann kjörinn besti leikmaður deildarinnar auk þess að vera besti sóknarmaðurinn.

Bjarni Fritzson
2011-2012

Bjarni Fritzson var eini markakóngur sameiginlegs liðs Akureyrar er hann gerði 163 mörk veturinn 2011-2012 en það gera 7,7 mörk að meðaltali í leik. Þá var Bjarni einnig markahæsti leikmaður í sögu hins sameiginlega liðs en hann gerði 709 mörk fyrir Akureyri sem var starfrækt frá árinu 2006 til 2017.

Halldór Jóhann Sigfússon
2004-2005

Halldór Jóhann Sigfússon sneri aftur heim í KA fyrir tímabilið 2004-2005 eftir að hafa leikið með Friesenheim í Þýskalandi. Endurkoma Dóra reyndist ansi farsæl en hann varð markakóngur með 168 mörk eða 8,4 mörk að meðaltali í leik. Dóri hélt aftur út að tímabilinu loknu og gekk til liðs við Tusem Essen.

Arnór Atlason
2003-2004

Arnór Atlason átti stórkostlegt tímabil með KA veturinn 2003-2004 þar sem liðið varð meðal annars Bikarmeistari. Þrátt fyrir ungan aldur fór hann fyrir liði KA og varð markakóngur efstu deildar með 237 mörk sem gera 9,48 mörk að meðaltali í leik. Arnór var í lok tímabils valinn besti leikmaður deildarinnar og sá efnilegasti og gekk í kjölfarið í raðir þýska stórliðsins SC Magdeburgar.

Róbert Julian Duranona
1995-1996

Það vakti mikla athygli þegar Duranona gekk til liðs við KA fyrir tímabilið 1995-1996. Hann varð snemma gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna KA og hann varð markakóngur efstu deildar á sínu fyrsta tímabili með liðinu er hann gerði 194 mörk sem gera 8,8 mörk að meðaltali í leik. Duranona varð fyrsti erlendi leikmaðurinn sem varð markakóngur en hann fékk síðar íslenskt ríkisfang. Einnig var hann valinn besti sóknarmaður deildarinnar.

Patrekur Jóhannesson
1994-1995

Patrekur Jóhannesson varð markakóngur efstu deildar tímabilið 1994-1995 þegar hann gerði 162 mörk sem gera 7,7 mörk að meðaltali í leik. Rétt eins og Valdimar árið áður varð Patrekur markakóngur á sínu fyrsta tímabili með KA. Patrekur var í lok tímabils valinn besti leikmaður deildarinnar.

Valdimar Grímsson
1993-1994

Valdimar Grímsson varð fyrsti markakóngur efstu deildar úr röðum KA tímabilið 1993-1994. Valdimar gerði alls 198 mörk sem gera 9,9 mörk að meðaltali í leik. Valdimar gekk í raðir KA fyrir tímabilið og átti stóran þátt í uppbyggingu liðsins. Liðið lék í fyrsta skipti til úrslita í bikarkeppninni og hampaði titlinum svo ári síðar með Valdimar innan sinna raða.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is