Flýtilyklar
Myndir frá bikarsigri KA á Þór 1998
KA og Þór mætast í 32-liða úrslitum Coca-Cola bikars karla klukkan 19:30 í Höllinni í kvöld og verður leikurinn sýndur beint á RÚV 2. Í gær rifjuðum við upp ógleymanlega viðureign liðanna í bikarkeppninni árið 1998 sem er einmitt síðasti bikarslagur liðanna fyrir leik kvöldsins.
Þórir Tryggvason ljósmyndari tók sig til og gróf upp nokkrar skemmtilegar myndir frá leiknum árið 1998 þar sem KA fór með 26-28 sigur af hólmi eftir spennuþrunginn baráttuleik. Þórir skannaði myndirnar og vann þær til fyrir birtingu á heimasíðunni og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá bikarslag KA og Þórs árið 1998
Ef þú átt eftir að renna yfir upprifjun okkar frá leiknum fræga sem við birtum í gær skaltu endilega kynna þér hann með því að smella hér. Spennuþrungin lokamínúta leiksins mun seint gleymast enda innihélt hún sigurmark KA sem og ótrúlegt rautt spjald þegar Ingólfur Samúelsson skallaði Halldór Jóhann Sigfússon!
Það er ekki nokkur spurning að leikur kvöldsins verður veisla fyrir Akureyringa enda alls ekki á hverjum degi sem KA og Þór mætast í bikarkeppninni í handbolta. Því miður mega engir áhorfendur vera á leiknum en það ætti enginn að missa af leiknum í beinni útsendingu á RÚV 2 kl. 19:30. Góða skemmtun og áfram KA!