Lydía framlengir við KA/Þór

Handbolti
Lydía framlengir við KA/Þór
Frábærar fréttir!

Lydía Gunnþórsdóttir skrifaði í dag undir nýjan eins árs samning við KA/Þór og verður hún því áfram í eldlínunni með okkar öfluga liði í Grill66 deildinni í vetur. Lydía er einn efnilegasti leikmaður landsins og var meðal annars í lykilhlutverki með U18 ára landsliði Íslands á HM sem fór fram í Kína í sumar.

Lydía sem verður 18 ára seinna í mánuðinum hefur þrátt fyrir ungan aldur verið í stóru hlutverki í meistaraflokksliði KA/Þórs undanfarin ár og hefur nú leikið alls 52 leiki í deild, bikar og Evrópu.


Lydía hlaut Böggubikarinn fyrr á árinu

Lydía er gríðarlega efnilegur leikstjórnandi, með mikinn leikskilning og er auk þess frábær skotmaður. Þá býr hún yfir miklum leiðtogahæfileikum og drífur liðsfélaga sína með sér. Hún átti því heldur betur skilið að hljóta Böggubikarinn á 96 ára afmælisfögnuði KA en hann er veittur einstaklingum sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega.

Það er spennandi vetur framundan hjá KA/Þór þar sem við munum byggja á uppöldum leikmönnum í baráttunni um að endurheimta sæti í deild þeirra bestu. Það eru því afar jákvæð tíðindi að Lydía sé klár í slaginn og hlökkum við svo sannarlega til að fylgjast áfram með framgöngu hennar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is