Flýtilyklar
Komdu ársmiðanum þínum í Stubb
Áhorfendur hafa verið leyfðir að nýju á íþróttaleikjum en eins og staðan er núna mega aðeins 142 áhorfendur vera í KA-Heimilinu. Til að bregðast betur við þeirri stöðu hefur Handknattleiksdeild KA ákveðið að stíga skrefið að færa miðasölu yfir í miðasöluappið Stubb.
Framundan eru heimaleikir hjá KA og KA/Þór en KA fær Selfoss í heimsókn á morgun, föstudag, klukkan 19:30 og KA/Þór fær Hauka í heimsókn á laugardaginn klukkan 15:30.
Miðasala í Stubb mun hefjast klukkan 19:00 í dag en ársmiðahafar hjá KA og KA/Þór geta komið upp í KA-Heimilið á milli klukkan 16:30 og 18:30 í dag og skipt út ársmiðanum sínum fyrir ársmiða í Stubb.
Athugið að virkja þarf símanúmerið ykkar undir stillingar í Stubb.
Knattspyrnudeild KA hefur notast við Stubb síðasta árið með góðum árangri og nú munu KA og KA/Þór í handboltanum einnig notast við appið. Við hvetjum þá sem hafa Stubb nú þegar í símanum sínum til að uppfæra forritið hjá sér.
Stærstu kostir þess að notast við Stubb eru að þú getur tryggt þér miða á leiki í símanum og því strax séð hvort það sé uppselt eða ekki. Þá getur þú skráð nafn, símanúmer og kennitölu í appið og sleppur því við að þurfa að gefa upp þær upplýsingar í hurðinni þegar þú mætir á leikinn.
Ef einhverjar spurningar eru varðandi Stubb er hægt að hafa samband við Ágúst í agust@ka.is.