KA úr leik eftir hörkuviðureign

Handbolti
KA úr leik eftir hörkuviðureign
Flott frammistaða í Evrópu (mynd: Þórir Tryggva)

KA mætti Austurríska liðinu HC Fivers í síðari leik liðanna í 2. umferð Evrópubikarsins í handbolta í Vín í gær en báðir leikir liðanna fóru fram ytra. KA liðið gerði sér lítið fyrir og vann 29-30 sigur í fyrri leiknum og var því töluverð pressa á liði Fivers fyrir síðari leikinn enda fyrirfram talinn sterkari aðilinn.

Rétt eins og í fyrri leiknum voru það Austurríkismennirnir sem byrjuðu betur og höfðu frumkvæðið. Að fyrri hálfleik loknum var staðan 17-12 fyrir Fivers og mikil stemning í húsinu. Það býr gríðarlegur karakter í okkar liði og við erfiðar aðstæður sýndu strákarnir hvað í þeim býr og þeir komu sér aftur inn í leikinn.

Á lokakaflanum var munurinn aðeins tvö mörk og KA í sókn þegar Allan Norðberg braut sér leið í gegn og virtist eiga að fá vítakast en ekkert var dæmt og þess í stað brunaði lið heimamanna fram og kom forystunni aftur í þrjú mörk. Að lokum unnu Fivers leikinn 30-26 og fara því áfram samanlagt 59-56. Afar svekkjandi að fá sem dæmi ekki víti þarna á úrslitastundu leiksins en hefði leikurinn tapast með einu marki hefði einvígið farið í vítakastkeppni.

Við getum þó verið gríðarlega stolt af framgöngu okkar liðs enda mikið uppbyggingarstarf í gangi hjá okkar liði auk þess sem að lið Fivers átti að eiga frekar þægilegt verkefni fyrir höndum. Það er klárt að þessi reynsla mun skila okkar unga liði langt í vetur og verður gaman að fylgjast með strákunum okkar í deild þeirra bestu.

Einar Rafn Eiðsson var markahæstur í liði KA með 8 mörk, Skarphéðinn Ívar Einarsson gerði 5, Dagur Gautason 4, Allan Norðberg 3, Dagur Árni Heimisson 3, Gauti Gunnarsson 2 og Hilmar Bjarki Gíslason 1. Í markinu varði Bruno Bernat 6 skot og Nicholas Satchwell 4 skot.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is