KA tryggði úrslitakeppnissæti (myndaveisla)

Handbolti
KA tryggði úrslitakeppnissæti (myndaveisla)
Sigurgleðin var allsráðandi (mynd: Egill Bjarni)

KA tryggði sér sæti í úrslitakeppninni í handboltanum með frábærum 30-29 sigri á FH í hádramatískum leik í KA-Heimilinu. Ekki nóg með að tryggja sæti í úrslitakeppninni með sigrinum þá lyfti liðið sér upp í 3.-4. sæti deildarinnar og er aðeins tveimur stigum frá FH í 2. sætinu fyrir síðustu tvær umferðirnar.

Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á svæðinu og býður til myndaveislu frá sigurgleðinni í KA-Heimilinu.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Það var mikið undir hjá báðum liðum og fór leikurinn af stað með krafti. Það var hart barist og lá í loftinu að það myndi sjóða uppúr. Jafnt var á öllum tölum uns KA gerði þrjú mörk í röð og komst í 7-4 forystu. Þá hrökk sóknarleikurinn í baklás og FH-ingar gengu á lagið. Þeir sneru dæminu við og leiddu 9-12 er skammt var til hlés. En strákarnir komu til baka og löguðu stöðuna í 12-13 fyrir hálfleikinn.

Tímalína fyrri hálfleiks

Gestirnir leiddu áfram í síðari hálfleik og tókst KA liðinu ekki að jafna metin. Staðan var 17-20 um miðbik hálfleiksins er endurkoman sem liðið okkar virðist alltaf ná að koma með mætti á svæðið. KA gerði næstu fimm mörk leiksins og tók forystuna 22-20. Endakaflinn varð æsispennandi og mátti vart sjá hvoru megin sigurinn myndi enda.

Rétt eins og í síðasta leik voru það gestirnir sem leiddu með einu marki fyrir síðustu fimm mínúturnar en alveg eins og í ÍBV leiknum var KA liðið sterkara þegar mest á reyndi og sigldi sigrinum heim eftir að Árni Bragi Eyjólfsson sem átti stórleik og gerði 11 mörk kom liðinu í 30-28 á lokamínútunni.

Tímalína seinni hálfleiks

Gríðarlega sætur og mikilvægur sigur í höfn og sigurgleðin sem braust út var stórkostleg. Það skiptir öllu máli að fá öflugan stuðning og hann gerði gæfumuninn í eins jöfnum leik og raun bar vitni.

Nú er bara spennandi að sjá hvar liðið endar í deildinni og hvaða mótherja strákarnir fá í úrslitakeppninni. Framundan er útileikur gegn Val á mánudaginn og loks síðasti leikurinn í deildinni á fimmtudaginn er nágrannar okkar í Þór mæta í KA-Heimilið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is