KA/Þór í úrslit eftir svakalegan leik (myndaveislur)

Handbolti
KA/Þór í úrslit eftir svakalegan leik (myndaveislur)
Þvílíkur karakter í okkar liði (mynd Egill Bjarni)

KA/Þór tók á móti ÍBV í hreinum úrslitaleik um sæti í lokaúrslitum Íslandsmótsins í handbolta kvenna í KA-Heimilinu í gær. Liðin höfðu unnið sitthvorn leikinn og því ljóst að það lið sem færi með sigur af hólmi myndi fara í lokaúrslitin og mæta þar Val.

Þeir Þórir Tryggvason og Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndarar voru á svæðinu og bjóða til myndaveislu frá þessum stórkostlega handboltaleik.

Fjölmargir stuðningsmenn lögðu leið sína í KA-Heimilið og úr varð magnþrungin stemning frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Jafnt var á með liðunum nær allan tímann og spennustigið ansi hátt. Með öflugum lokakafla í fyrri hálfleik tókst KA/Þór að ná tveggja marka forskoti og leiddi 12-10 er liðin gengu til búningsherbergja sinna.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum

Útlitið var orðið ansi gott þegar kortér lifði leiks í stöðunni 18-15 en þá kom erfiður kafli þar sem ÍBV sneri leiknum sér ívil og tók forystuna í 19-20. Enn leiddi ÍBV er fimm mínútur voru eftir en stelpurnar okkar eru alls ekki þekktar fyrir að leggja árar í bát og þær gerðu næstu tvö mörk og tóku forystuna á ný.

Það var skrifað í skýin að það þyrfti að framlengja leikinn og það varð raunin eftir að vítakast geigaði hjá okkar liði á síðustu mínútunni og ÍBV átti skot í slá og út er leiktíminn var liðinn. Í framlengingunni fóru markverðir liðanna áfram á kostum og varð hvert mark því ansi mikilvægt. Staðan var jöfn 26-26 eftir fyrri hálfleik framlengingar en í þeirri síðari tókst stelpunum að kreista fram 28-27 sigur og sigurgleðin sem braust út var stórkostleg.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

KA/Þór heldur því áfram að skrifa söguna upp á nýtt og leikur í fyrsta skiptið til úrslita í úrslitakeppninni auk þess sem að liðið er Deildarmeistari og Meistari Meistaranna. Fyrsti leikurinn í einvíginu gegn Val verður á miðvikudaginn í KA-Heimilinu. Vinna þarf tvo leiki til að hampa Íslandsmeistaratitlinum og ef til oddaleiks kemur verður hann á heimavelli enda stelpurnar með heimaleikjarétt.

Matea Lonac fór hamförum í leiknum og varði 23 skot. Rakel Sara Elvarsdóttir var markahæst með 6 mörk og Ásdís Guðmundsdóttir gerði 5 mörk, þar af tvö úr vítum. Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir gerðu 4 mörk hvor, Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Sólveig Lára Kristjánsdóttir gerðu báðar 3 mörk, Anna Þyrí Halldórsdóttir gerði 2 mörk og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir gerði 1 mark.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is