Flýtilyklar
KA/Þór eitt á toppnum (myndir)
KA/Þór fékk Hauka í heimsókn í 11. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í gær en fyrir leiki dagsins voru stelpurnar á toppi deildarinnar ásamt Fram með 16 stig. Haukar voru hinsvegar í 6. sæti með 9 stig og deildin ákaflega jöfn og spennandi fyrir lokakaflann.
Haukar hafa verið að leika vel að undanförnu auk þess sem að fyrri leikur liðanna var jafn og spennandi. KA/Þór vann þann leik að Ásvöllum 20-21 eftir mikla baráttu og mátti því búast við ansi erfiðum leik í dag sem úr varð.
Leikurinn fór jafnt af stað og var sóknarleikurinn í fararbroddi. Hægt og bítandi náðu stelpurnar þriggja marka forskoti og útlitið nokkuð gott. En þá fór Annika Friðheim í marki Hauka í ham og fór að verja hvert dauðafærið á fætur öðru. Fyrir vikið tókst gestunum að brúa bilið og var staðan jöfn 13-13 er liðin gengu til búningsherbergja sinna.
Flott stemning myndaðist í KA-Heimilinu þrátt fyrir að góða veðrið hafi komið í veg fyrir að uppselt yrði á leikinn. Þeir sem mættu létu hinsvegar vel í sér heyra og fangaði Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari stemninguna í húsinu vel að vanda.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum
Haukar náðu svo frumkvæðinu í upphafi síðari hálfleiks og úr varð mikil spenna. En góður fjögurra marka kafli KA/Þórs kom stelpunum í þriggja marka forskot fyrir lokakaflann. En Haukarnir lögðu ekki árar í bát og þær jöfnuðu í 21-21 og eftir það var jafnt á öllum tölum.
Ekki var útlitið gott þegar tvær mínútur lifðu leiks í jafnri stöðu þegar Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir uppskar brottvísun. Stelpurnar léku því manni færri síðustu tvær mínúturnar og Haukarnir komust yfir í 26-27. Ásdís Guðmundsdóttir brá sér í vinstra hornið í fjarveru Kristínar og hún jafnaði metin í 27-27 á lokamínútunni en enn var rúm hálf mínúta til leiksloka.
Haukar fengu úrvalsfæri í horninu enda manni fleiri en heppnin var með okkur að þessu sinni því skotið fór í stöngina og út og 27-27 jafntefli þar með niðurstaðan. Þetta stig getur reynst ansi mikilvægt þegar upp er staðið en Fram tapaði á sama tíma 26-24 í Vestmannaeyjum.
Það er í raun ótrúlegt að stelpunum hafi tekist að halda jafnri stöðu manni færri undir lokin og þá sérstaklega þegar litið er til stórleiks Anniku í marki Hauka en hún varði 15 bolta, marga hverja úr dauðafærum. Hjá KA/Þór varði Sunna Guðrún Pétursdóttir 4 bolta og Matea Lonac tvö skot.
Rut Jónsdóttir var markahæst en hún átti enn einn stórleikinn og gerði 11 mörk, þar af 6 úr vítum. Rakel Sara Elvarsdóttir kom næst með 6 mörk, þá gerðu þær Aldís Ásta Heimisdóttir, Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Ásdís Guðmundsdóttir allar 3 mörk og Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir gerði 1 mark.
KA/Þór er því eitt á toppi deildarinnar með 17 stig þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir en Fram er með 16 stig. Næsti leikur útileikur gegn HK strax á miðvikudaginn og í kjölfarið kemur landsleikjapása. Lokaleikir stelpnanna eru svo gegn Val á heimavelli og svo vonandi úrslitaleikur um Deildarmeistaratitilinn gegn Fram í Safamýrinni í síðustu umferðinni.
Það er því ansi spennandi barátta framundan og vonandi að stelpurnar nái að hala inn tveimur stigum fyrir landsleikjapásuna. Reyndar verða Ásdís Guðmundsdóttir og Rut Jónsdóttir í eldlínunni með landsliðinu í forkeppni HM en aðrir leikmenn liðsins fá aðeins að pústa á meðan.