KA/Þór áfram á toppnum eftir stórsigur

Handbolti
KA/Þór áfram á toppnum eftir stórsigur
Stelpurnar keyrðu yfir FH (mynd: Egill Bjarni)

KA/Þór fékk botnlið FH í heimsókn í Olísdeild kvenna í dag en fyrir leikinn voru stelpurnar á toppi deildarinnar ásamt Fram. Stelpurnar lentu í miklum vandræðum með FH í fyrri leik liðanna og hafði Andri Snær þjálfari liðsins undirbúið liðið vel fyrir átök dagsins.

Það varð strax ljóst að það yrði engin spenna í leik dagsins en frábær byrjun okkar liðs kaffærði Hafnfirðingana. Staðan var orðin 7-2 eftir fyrstu tíu mínútur leiksins og áfram héldu stelpurnar að þjarma að gestunum.

Ellefu mínútum fyrir hlé minnkaði FH muninn í 12-5 en í kjölfarið kom frábær kafli þar sem FH skoraði ekki mark það sem eftir lifði hálfleiksins og stelpurnar okkar gengu á lagið. Staðan var 19-5 er fyrri hálfleikur var úti og aðeins spurning hversu stór sigurinn myndi verða.

Tímalína fyrri hálfleiks

Munurinn var kominn upp í sautján mörk er FH tókst loksins að skora eftir fimmtán mínútna markaþurrð og varð síðari hálfleikurinn algjört formsatriði. Lokatölur urðu 34-17 en mest leiddi KA/Þór leikinn með átján mörkum.

Tímalína seinni hálfleiks

Með sigrinum héldu stelpurnar sér á toppnum en Fram vann öruggan 24-32 sigur og eru liðin því áfram jöfn nú með 16 stig er aðeins fjórar umferðir eru eftir. ÍBV vann Val 20-21 auk þess sem að Stjarnan tapaði fyrir HK sem þýðir að nú eru heil fimm stig frá toppliðunum og niður í 3. sætið og ljóst að annaðhvort KA/Þór eða Fram verður Deildarmeistari.

Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Ásdís Guðmundsdóttir voru markahæstar í dag með 7 mörk hvor, Sólveig Lára Kristjánsdóttir gerði 6 mörk, Rut Jónsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir gerðu 4 mörk hvor, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 2 og Arna Valgerður Erlingsdóttir gerði eitt mark. Matea Lonac átti stórleik og varði 15 bolta og var með 53,6% markvörslu og Ólöf Maren Bjarnadóttir hélt uppteknum hætti með 4 varin skot og 50% vörslu.

Þá var einkar gaman að sjá Sunnu Katrínu Hreinsdóttur, Hildi Lilju Jónsdóttur og Aþenu Einvarðsdóttur fá tækifærið en stelpurnar eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og fengu dýrmæta reynslu í dag.

Næsti leikur er gegn Haukum næsta laugardag hér í KA-Heimilinu og ljóst að stelpurnar þurfa að halda áfram að hafa fókusinn í lagi en ef allt fer að óskum gæti lokaleikur deildarinnar gegn Fram orðið úrslitaleikur um Deildarmeistaratitilinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is