KA skellti toppliðinu (myndaveisla)

Handbolti
KA skellti toppliðinu (myndaveisla)
2 STIG Í HÚS! (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Haukum í KA-Heimilinu í gærkvöldi en leikurinn var frestaður leikur úr 5. umferð Olísdeildarinnar. Liðin höfðu leikið 10 leiki á meðan önnur lið deildarinnar höfðu leikið 11 og deildarkeppnin því hálfnuð eftir kvöldið.

Bæði lið hafa verið á fljúgandi siglingu að undanförnu en KA var taplaust í síðustu sex leikjum sínum en Haukar höfðu sótt 11 af 12 stigum eftir Covid pásu og aðeins tapað einum leik í allan vetur og voru í góðri stöðu á toppi deildarinnar.

Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á svæðinu og fangaði steminguna frábærlega í myndaveislu sem hægt er að skoða með því að smella á myndina hér fyrir neðan.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

KA liðið hefur verið að spila frábæran varnarleik að undanförnu og hann dugði einmitt til 19-21 sigurs á Þór á dögunum þar sem sóknarleikurinn var ekki upp á sitt besta. Það varð engin breyting á varnarleiknum í kvöld og byrjun strákanna í leiknum var algjörlega upp á tíu!

Gestunum tókst aðeins að skora eitt mark á fyrstu níu mínútum leiksins en á sama tíma refsaði KA liðið með hröðum upphlaupum og komst í 7-1 og 8-2 áður en Haukarnir fóru loks að finna taktinn. Hægt og bítandi tókst þeim að minnka forskotið og í lok fyrri hálfleiks fengu þeir dauðafæri á að minnka muninn í eitt mark úr vítakasti en það geigaði og KA leiddi því 16-14 er liðin gengu til búningsherbergja sinna.

Tímalína fyrri hálfleiks

Þetta var fyrsti leikurinn frá því snemma í haust að áhorfendur fengu að mæta í KA-Heimilið og létu þeir 142 einstaklingar sem tryggðu sér miða heldur betur í sér heyra. Stemningin var frábær og æfingaleikjabragurinn sem hefur einkennt deildina undanfarna mánuði er horfinn.

Gestirnir tóku stuttan fund í hléinu og hófu í raun aftur upphitun, greinilegt að þeir ætluðu sér að mæta klárir í síðari hálfleikinn. Það gekk hinsvegar ekki upp og aftur var það KA sem byrjaði betur. Munurinn fór aftur upp í fjögur mörk og áfram hlutverk gestanna að elta og reyna að brúa bilið.

Um miðbik síðari hálfleiks tókst þeim að minnka muninn í eitt mark og úr varð gríðarleg spenna. Þrátt fyrir nokkra fína möguleika tókst Haukunum aldrei að jafna og verður að hrósa strákunum okkar fyrir að halda haus og spila áfram sinn leik en Haukar eru iðulega ótrúlega seigir og hafa í ófá skipti tekið yfir leiki þegar mest á reynir og sigla heim stigunum tveimur.

En þeir sem hafa fylgst með okkar liði að undanförnu vita að strákarnir hafa verið að slátra andstæðingum sínum á lokakaflanum og í stað þess að Haukar næðu að jafna bættu strákarnir í og náðu aftur þriggja marka forskoti. Það var því minni spenna á lokamínútunum en stefndi í og KA sigldi að lokum afar sanngjörnum og sannfærandi 30-28 sigri eftir að Haukar löguðu stöðuna úr vítakasti er leiktíminn var liðinn.

Tímalína seinni hálfleiks

Sigurgleðin í leikslok var æðisleg, strákarnir fagna sigrum sínum ávallt vel en það er miklu skemmtilegra að deila gleðinni með stuðningsfólki okkar og það varð heldur betur raunin í gærkvöldi.

Með sigrinum lyfti KA liðið sér upp í 3. sæti deildarinnar með 14 stig og eru aðeins þremur stigum á eftir Haukum sem eru á toppnum og deildarkeppnin hálfnuð. Næsti leikur er strax á sunnudaginn er strákarnir sækja Fram heim en Framarar hafa verið að sækja góð stig að undanförnu og eru með 10 stig í 9. sæti deildarinnar.

Árni Bragi Eyjólfsson fór hamförum og gerði 10 mörk þar af tvö úr vítaköstum, Jóhann Geir Sævarsson 6, Patrekur Stefánsson 5, Áki Egilsnes 4, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2 og Allan Norðberg gerði 1 mark. Nicholas Satchwell var frábær í markinu og varði 15 skot.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is