KA Í BIKARÚRSLIT!

Handbolti

KA leikur til úrslita í Coca-Cola bikarnum eftir stórkostlegan 28-27 sigur á Selfyssingum eftir framlengdan háspennuleik. Strákarnir mættu gríðarlega vel stemmdir til leiks og með stórkostlegum stuðning fjölmargra KA-manna tókst ætlunarverkið og framundan bikarúrslitaleikur gegn Val á laugardaginn.

Leikurinn var æsispennandi og var jafnt á nær öllum tölum í fyrri hálfleik. Að honum loknum var staðan jöfn 11-11 og spennan svakaleg. Bæði lið voru vel hvött áfram af sínum stuðningsmönnum og leikurinn í raun frábær auglýsing fyrir íslenskan handbolta.

Í síðari hálfleik tókst strákunum að ná frumkvæðinu og þeir virtust ætla að klára leikinn í venjulegum leiktíma. Staðan var 23-18 fyrir KA er um sjö mínútur lifðu leiks en þá hrundi spilamennska liðsins sem hafði verið svo mögnuð og Selfyssingar gengu á lagið. Þeim tókst að jafna í 23-23 með fimm mörkum í röð og úr varð að framlengja þurfti viðureignina.

Lang flest lið hefðu brotnað í kjölfar þess að missa frá sér í raun unnin leik en strákarnir sýndu enn og aftur stórbrotinn karakter og með ærandi stuðning okkar mögnuðu stuðningsmanna tókst þeim að tryggja ótrúlega sætan 28-27 sigur þar sem Arnar Freyr Ársælsson skoraði sigurmarkið á lokasekúndu framlengingarinnar.

Óðinn Þór Ríkharðsson var stórkostlegur í liði KA en hann gerði 12 mörk og klikkaði varla á skoti. Nicholas Satchwell varði frábærlega í markinu en hann varði 18 skot og var með 41% markvörslu. Í raun skiluðu allir leikmenn sínu og frábært að sjá baráttuna sem skein úr andlitum allra. Allan Norðberg gerði 4 mörk, Einar Birgir Stefánsson 3, Jón Heiðar Sigurðsson 3, Arnar Freyr Ársælsson 3, Patrekur Stefánsson 2 og Ólafur Gústafson 1.

Sigurgleðin sem braust út var heldur betur mögnuð og í raun óraunverulegt að sjá hve margir lögðu leið sína á leikinn frá Akureyri miðað við að spilað var á miðvikudagskvöldi. Framundan er svo sjálfur úrslitaleikurinn á laugardaginn og ljóst að við þurfum á ykkur öllum að halda til að leggja Íslands- og Bikarmeistara Vals að velli þar.

Við verðum með hópferð á leikinn að norðan og hvetjum við alla sem hafa áhuga til að láta vita í netfanginu siguroli@ka.is sem allra fyrst. Athugið að ef að KA/Þór vinnur sinn undanúrslitaleik á morgun, fimmtudag, munum við stilla ferðinni þannig upp að fólk nái báðum leikjum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is