Flýtilyklar
KA áfram í bikarúrslit í 4. flokki!
Strákarnir á yngra ári í 4. flokki KA í handbolta áttu erfitt verkefni fyrir höndum í dag þegar þeir sóttu Hauka heim í undanúrslitum bikarkeppni HSÍ. Þarna mættust liðin í efstu tveimur sætunum í deildinni og ljóst að hart yrði barist um sæti í sjálfum úrslitaleiknum.
Ekki blés þó byrlega fyrir strákana í upphafi en Haukarnir byrjuðu betur og komust meðal annars í 10-5. Þá rönkuðu strákarnir við sér og þeir sneru leiknum við. Staðan var jöfn 13-13 er flautað var til hálfleiks og spennan rafmögnuð.
Sama spenna einkenndi svo síðari hálfleikinn en þegar lítið var eftir leiddu strákarnir með þremur mörkum. Haukarnir reyndu hvað þeir gátu til að knýja fram framlengingu en náðu aðeins að minnka muninn í eitt mark og 29-30 sigur KA liðsins því staðreynd.
Stórkostlegur sigur hjá strákunum sem eru þar með komnir í úrslitaleikinn og mæta þar FH. KA liðið er á toppi deildarinnar en FH er skammt undan og eiga nokkra leiki til góða þannig að það má búast við sömu spennu í Laugardalshöllinni.
Við óskum strákunum til hamingju með sigurinn og verður hrikalega gaman að fylgjast með þeim í úrslitaleiknum. 3. flokkur KA/Þórs er einnig komið í úrslit auk þess sem meistaraflokkur KA/Þórs er í undanúrslitunum. Það er því heldur betur frábær árangur í bikarkeppninni þetta árið hjá okkar liðum.