Flýtilyklar
Fyrsti bikarslagur KA og Þórs frá árinu 1998
Einn af leikjum ársins fer fram í Íþróttahöllinni á morgun, miðvikudag, er Þór og KA mætast í bikarkeppni karla í handboltanum. Liðin hafa ekki mæst í bikarkeppninni frá árinu 1998 og má með sanni segja að mikil eftirvænting sé fyrir leiknum.
Liðin leika bæði í efstu deild í vetur en Þórsarar eru með 2 stig í næstneðsta sæti á meðan KA er með 7 stig í 7. sæti deildarinnar. Deildarstaðan skiptir hinsvegar engu máli í bikarkeppninni og hvað þá þegar um nágrannaslag KA og Þórs er um að ræða. Það má því búast við svakalegum leik í Höllinni kl. 19:30 annaðkvöld en leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV 2.
Talandi um svakalega leiki þá var einmitt síðasti bikarleikur liðanna einn frægasti leikur liðanna í handboltanum þegar liðin mættust í Íþróttahöllinni þann 15. desember 1998. KA var í toppbaráttu í efstu deild á meðan Þórsarar voru í 2. deild og reiknuðu því flestir með þægilegum sigri KA í bikarslag liðanna.
Svo fór nú aldeilis ekki og lenti KA liðið í miklum vandræðum. Jafnt var á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik og leiddi KA 13-14 er flautað var til hálfleiks. Sama spenna einkenndi síðari hálfleikinn og þegar sjö mínútur lifðu leiks voru Þórsarar komnir yfir í 23-22. Jóhann Gunnar Jóhannsson tók þá til sinna ráða og gerði þrjú mörk í röð fyrir KA liðið og breytti stöðunni í 23-25.
Lokaandartökin í síðasta bikarslag KA og Þórs voru magnþrungin!
Þórsurum tókst að minnka muninn í eitt mark í 24-25, aftur í 25-26 og loks 26-27 og spennan svakaleg á lokamínútunum. Jóhann Gunnar sótti svo vítakast fyrir KA á lokaandartökunum sem Halldór Jóhann Sigfússon skoraði úr og tryggði 26-28 sigur KA í leiknum. Í kjölfarið skallaði Ingólfur Samúelsson leikmaður Þórs Halldór og uppskar rautt spjald.
Það er hinsvegar ótrúlegt að hugsa til þess að dómarar leiksins tóku þó nokkurn tíma í að ráða ráðum sínum en annar þeirra vildi sætta þá félaga og sleppa því að refsa Ingólfi en að lokum fór rauða spjaldið á loft, réttilega.
KA fór þar með áfram í bikarkeppninni á kostnað nágranna sinna en Jóhann Gunnar Jóhannsson var besti leikmaður KA með 8 mörk, Halldór Jóhann Sigfússon gerði 5 mörk (3 úr vítum), Lars Walther 4 mörk, Sævar Árnason 4 mörk, Sverre Andreas Jakobsson 3 mörk, Leó Örn Þorleifsson 2 og þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Jónatan Magnússon gerðu sitt markið hvor. Í markinu varði Sigtryggur Albertsson 13 skot þar af eitt vítakast.
Það verður spennandi að sjá hvort leikur liðanna á morgun, miðvikudag, verði jafn sögufrægur en eitt er allavega víst að það verður hart barist ekki bara um sæti í næstu umferð bikarkeppninnar heldur um montréttinn í bænum.
Engir áhorfendur verða leyfðir á leiknum og því um að gera að koma sér vel fyrir heima og horfa á leikinn í beinni á RÚV 2 á slaginu 19:30.