Frábær sigur KA á FH (myndaveisla)

Handbolti
Frábær sigur KA á FH (myndaveisla)
Tvö stig í hús! (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti FH í Olísdeildinni í handbolta á föstudaginn en fyrir leikinn voru gestirnir á toppi deildarinnar og höfðu aðeins tapað tveimur leikjum í vetur. KA liðið hefur verið á miklu skriði að undanförnu og strákarnir voru staðráðnir í að sækja sigur í síðasta leik liðsins fyrir bikarúrslitahelgina.

Gestirnir byrjuðu betur og komust í 1-3 en þá kom þrjú mörk í röð frá KA liðinu sem í kjölfarið náði yfirhöndinni og stýrði hreinlega leiknum. Frábær varnarleikur skilaði ódýrum hröðum upphlaupum og strákarnir voru agaðir í sóknarleiknum.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Hálfleikstölur voru 15-12 KA ívil og strákarnir gengu hreinlega frá leiknum í upphafi síðari hálfleiks. Munurinn varð fljótlega sex mörk í stöðunni 20-14 og það bil tókst gestunum aldrei að brúa. Mest leiddi KA með sjö mörkum og vann að lokum afar sanngjarnan 32-27 sigur.

Tvö frábær stig í hús og það er algjörlega magnað að fylgjast með strákunum springa út síðustu vikur. Stuðningurinn í stúkunni hefur einnig verið frábær og ljóst að KA-Heimilið er aftur orðið það vígi sem við þekkjum sem mun skipta sköpum í þeirri hörðu baráttu sem framundan er í deildinni.

Nú er hinsvegar komið að bikarúrslitahelginni þar sem KA mætir liði Selfoss í undanúrslitum á miðvikudaginn en leikið er að Ásvöllum í Hafnarfirði. KA varð síðast bikarmeistari árið 2004 og loksins erum við komin aftur á stóra sviðið. Það skiptir öllu máli að við fjölmennum og tryggjum strákana áfram í úrslitaleikinn sem fer fram á laugardaginn 12. mars.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is