Flýtilyklar
Fjögurra stiga leikur í Safamýrinni kl. 15:00
Leikjaálagið heldur áfram í Olísdeild karla í handboltanum þegar KA sækir Fram heim í Safamýrina klukkan 15:00 í dag. KA liðið sem hefur verið á fljúgandi ferð að undanförnu og er ósigrað í síðustu sjö leikjum sínum situr í 3. sæti deildarinnar fyrir leiki dagsins.
Framarar eru hinsvegar einungis fjórum stigum á eftir í 9. sætinu og því ansi mikilvægur fjögurra stiga leikur framundan. Deildarstaðan er því ansi blekkjandi þegar jafn fá stig skilja liðin að í toppbaráttunni og þau sem sitja utan við úrslitakeppnissæti.
Það hefur verið mikið álag að undanförnu á okkar lið en strákarnir unnu frækinn 30-28 sigur á toppliði Hauka á fimmtudaginn í frestuðum leik. Framarar hafa hinsvegar fengið vikutíma til að undirbúa sig fyrir leikinn í dag og vonandi að það hafi ekki of mikil áhrif í dag.
Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og því um að gera að fylgjast vel með gangi mála, áfram KA!