Flýtilyklar
Endurkoma KA skilaði stigi í Krikanum
KA sótti FH heim í Olísdeild karla í handboltanum í gærkvöldi en fyrir leikinn voru FH-ingar með 8 stig en KA var með 4 stig en hafði leikið einum leik minna. Strákarnir voru klárir að svara fyrir svekkjandi tap í síðustu umferð og mættu vel stemmdir til leiks.
Jafnt var á með liðunum á upphafsmínútum leiksins en það var okkar lið sem leiddi. Um miðbik fyrri hálfleiks tókst heimamönnum að snúa stöðunni sér í vil og ná tveggja marka forskoti. Liðin héldu áfram að skiptast á að leiða og úr varð þrælskemmtilegur leikur.
Lið FH átti betri kafla undir lok fyrri hálfleiks og fór því með 15-13 forystu inn í hálfleikinn. Strákunum tókst enn og aftur að koma með gott áhlaup og jöfnuðu metin í 18-18 og komust svo yfir í 19-20. En sveiflurnar héldu áfram í leiknum og Hafnfirðingar voru fljótir að endurheimta forskotið. Þeir komust í 28-25 er um tíu mínútur lifðu leiks.
Útlitið var svo orðið heldur svart er rétt rúmar tvær mínútur voru til leiksloka og FH með fjögurra marka forskot, 31-27. En strákarnir lögðu ekki árar í bát og þeir héldu áfram, áhættan að stytta sóknir liðsins borgaði sig með einföldum mörkum og á sama tíma stóð vörnin fyrir sínu. Forskotið var orðið eitt mark er hálf mínúta var eftir þegar KA vann boltann.
Lokasókn liðsins virtist þó renna út í sandinn er brotið var á Daða Jónssyni á línunni en Daði var fljótur að taka aukakastið og reyna koma boltanum á markið enda tíminn að renna út. Skot Daða fór í varnarvegginn og leikflautan gall. En dómarar leiksins báðu menn um að hafa sig hægan og ræddu málið í þó nokkurn tíma.
Að lokum varð niðurstaðan sú að varnarmenn FH hafi verið of framarlega í varnarveggnum og þar með rænt KA liðinu tækifærinu á að nýta aukakastið sitt. Þar með uppskar KA vítakast og fyrirliðinn Andri Snær Stefánsson fékk það verkefni að jafna metin eftir þessa löngu pásu og spennan í algleymingi. En Andri Snær er orðinn vanur hinum ýmsu stöðum í handboltanum og skoraði af miklu öryggi sem tryggði 31-31 jafntefli og ótrúleg endurkoma liðsins fullkomnuð.
Karakterinn sem liðið sýndi í leiknum en þó sérstaklega á lokamínútunum er ómetanlegur og ekki spurning að það býr hellingur í okkar flotta liði. Að sækja stig í Kaplakrika er afar sterkt og sérstaklega þegar staðan er orðin jafn slæm og hún var. KA liðið er því komið með 5 stig í deildinni og á um helgina leik gegn botnliði ÍR. Það stefnir í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni og ekki spurning að þetta stig mun telja mikið þegar upp verður staðið í vor.
Einar Birgir Stefánsson átti stórkostlegan leik á línunni og var markahæstur með 8 mörk og það úr 8 skotum, geri aðrir betur! Ólafur Gústafsson átti flottan leik gegn sínu gamla liði og gerði 7 mörk, Allan Norðberg 5, Jón Heiðar Sigurðsson 4, Árni Bragi Eyjólfsson og Andri Snær Stefánsson gerðu 3 mörk og Áki Egilsnes gerði 1 mark. Í markinu varði Svavar Ingi Sigmundsson 6 skot og Nicholas Satchwell 5 skot.