Anna Þyrí framlengir við KA/Þór!

Handbolti
Anna Þyrí framlengir við KA/Þór!
Frábærar fréttir!

Anna Þyrí Halldórsdóttir skrifaði í dag undir nýjan samning við KA/Þór og leikur hún því áfram með liðinu á komandi handboltavetri. Þetta eru gífurlega jákvæðar fréttir enda hefur Anna Þyrí sýnt sig og sannað sem einn besti línumaður og varnarmaður Olísdeildarinnar undanfarin ár.

Anna Þyrí sem er 23 ára gömul er uppalin hjá KA/Þór og hefur þrátt fyrir ungan aldur verið algjör lykilmaður í meistaraflokksliði félagsins. Hún hefur varla misst úr leik undanfarin sex tímabil og hefur nú leikið 149 leiki í deild, bikar og evrópu fyrir KA/Þór.

Með KA/Þór hefur hún hampað öllum þeim titlum sem eru í boði er stelpurnar urðu Íslandsmeistarar, Bikarmeistar, Deildarmeistarar og Meistarar Meistaranna. Anna Þyrí sýndi gríðarlegan karakter þegar Íslandsmeistaratitlinum var landað en þrátt fyrir að vera fárveik beit hún heldur betur á jaxlinn og átti risastóran þátt í því að stelpurnar kláruðu sterkt lið Vals að Hlíðarenda í lokaleik tímabilsins.

Eins og áður segir er Anna Þyrí gríðarlega öflugur línumaður og þá er hún gríðarlega sterk í vörn þar sem hún leikið iðulega sem bakvörður. Anna var fastamaður í yngrilandsliðum Íslands og endaði meðal annars í 5. sæti á Evrópumeistaramótinu með U-19 ára liðinu. Undanfarin ár hefur hún svo verið valin í B-landslið Íslands.

Við erum gríðarlega ánægð með að halda Önnu Þyrí áfram innan okkar raða og klárt að við höldum áfram okkar flottu vegferð að spila á uppöldum leikmönnum og höldum í okkar gildi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is