Aldís Ásta til liðs við Skara HF

Handbolti
Aldís Ásta til liðs við Skara HF
Óskum Aldísi góðs gengis í Svíþjóð

Aldís Ásta Heimisdóttir skrifaði í dag undir tveggja ára samning við sænska liðið Skara HF. Aldís sem er uppalin hjá KA/Þór er algjör lykilmaður í liðinu hvort sem er í sókn eða vörn. Þá lék hún sína fyrstu A-landsleiki fyrir Íslands hönd í vetur og gerði sín fyrstu landsliðsmörk í leik gegn Sviss.

Þetta er virkilega flott skref fyrir Aldísi sem er 23 ára gömul en hefur þrátt fyrir það verið algjör lykilleikmaður í KA/Þór frá því hún tók sín fyrstu skref í meistaraflokki tímabilið 2014-2015. Hún hefur alls leikið 170 leiki fyrir KA/Þór og varð með liðinu Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari auk þess að vera Meistari Meistaranna.

Auk A-landsleikjanna þá hefur Aldís leikið ófáa leiki fyrir unglingalandslið Íslands og lék meðal annars á HM í Ungverjalandi með U20 ára landsliðinu sumarið 2018. Árið 2016 hlaut Aldís Böggubikarinn en hann er veittur ungum iðkanda hjá KA sem skarar framúr bæði innan sem utan vallar.

Við óskum Aldísi til hamingju með samninginn og óskum henni góðs gengis. Aldís er gríðarlega metnaðarfull og leggur sig ávallt alla í verkefnið og við hlökkum til að fylgjast með henni í nýju og sterku umhverfi og höfum fulla trú á að hún haldi áfram að Skara framúr.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is