4. flokkur vann stórsigur í nágrannaslagnum

Handbolti
4. flokkur vann stórsigur í nágrannaslagnum
Jens var markahæstur í kvöld (mynd: Þórir Tryggva)

KA og Þór mættust í 4. flokki karla yngri í handbolta í kvöld en leikið var í Síðuskóla. Tímabilið er nýlega komið aftur af stað hjá strákunum eftir Covid pásu og var deildarkeppninni endurraðað til að passa upp á að hægt yrði að klára allar deildir.

Það leika því aðeins sex lið í efstu deild sem þýðir að 10 umferðir verða leiknar og ljóst að hvert stig mun telja ansi mikið þegar leikirnir eru jafn fáir og raun ber vitni. Bæði KA og Þór eru í efstu deild en KA hafði fyrir leik kvöldsins leikið einn leik sem vannst á útivelli gegn HK en Þórsarar voru að leika sinn fyrsta leik.

Nágrannaslagirnir milli KA og Þór verða oft ansi skrautlegir en það varð strax ljóst að strákarnir okkar voru mættir rétt stilltir inn í leikinn og þeir keyrðu yfir Þórsarana í upphafi. KA liðið komst fljótlega í 0-4 og eftir um kortérsleik var staðan orðin 1-10 fyrir KA og í raun öll spennan farin úr leiknum.

Í kjölfarið kom smá jafnvægi í leikinn og skiptust liðin á að skora en strákarnir gerðu síðustu tvö mörk hálfleiksins og leiddu því 5-16 er flautað var til hálfleiks. Spilamennska strákanna var til fyrirmyndar og virkilega gaman að sjá þá höndla spennustigið vel enda montrétturinn í húfi rétt eins og stigin tvö.

Þrátt fyrir að úrslitin væru í raun ráðin gáfu strákarnir ekkert eftir í þeim síðari og héldu áfram að bæta við forskotið. Stefán Árnason og Heimir Örn Árnason þjálfarar liðsins rúlluðu liðinu vel og spiluðu allir sem voru á skýrslu og nýttu tækifærið vel.

Að lokum vannst 13-32 stórsigur sem strákarnir geta verið ansi ánægðir með. Jens Bragi Bergþórsson fór hamförum og var markahæstur í liði KA með 10 mörk. Magnús Dagur Jónatansson gerði 6, Kári Brynjólfsson 5, Aron Daði Stefánsson 3, Dagur Árni Heimisson 3, Þormar Sigurðsson 2 og þeir Hugi Elmarsson, Jón Ólafur Harðarson og Heiðmar Björgvinsson gerðu allir eitt mark. Í markinu átti Óskar Þórarinsson skínandi leik og varði hvert skotið á fætur öðru.

Með sigrinum tyllir KA liðið sér þar með á topp efstu deildar með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki sína. Það er ljóst að það býr hellingur í okkar flotta liði og verður spennandi að sjá hvort strákunum takist að hampa Deildarmeistaratitlinum í vor.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is