Bikarinn á loft og mikilvægir leikir strákanna

Blak
Bikarinn á loft og mikilvægir leikir strákanna
Blakveislan heldur áfram! (myndir: BLÍ)

Úrvalsdeildum karla- og kvenna í blaki lýkur um helgina en bæði karla- og kvennalið KA leika heimaleiki. Stelpurnar okkar sem urðu Bikarmeistarar á dögunum eru einnig orðnar Deildarmeistarar og munu lyfta bikarnum í leikslok á sunnudaginn er þær taka á móti HK.

Karlalið KA leikur hinsvegar tvo leiki, einnig gegn HK og er talsvert meira undir í þeim leikjum. Fyrir lokaleikina er KA í 5. sæti deildarinnar með 30 stig en lið Vestra er í 4. sætinu með 33 stig. Efstu fjögur liðin fara í úrslitakeppnina og ljóst að KA þarf að treysta á hagstæð úrslit í leikjum Vestra og Hamars og klára sitt verkefni gegn HK.

Fyrri leikur KA og HK karlamegin fer fram í KA-Heimilinu á laugardaginn klukkan 19:00 og á sunnudeginum mætast karlaliðin klukkan 13:00. Í kjölfarið mætast kvennaliðin klukkan 15:30 og eins og áður segir lyfta stelpurnar svo bikarnum í leikslok fyrir að vera Deildarmeistarar.

Við hvetjum ykkur eindregið til að mæta og styðja blakliðin okkar, strákarnir eru enn í hörkuséns um að komast í úrslitakeppnina og stelpurnar okkar eiga svo sannarlega skilið að vera hylltar fyrir frábæran árangur í deildinni sem og í bikarkeppninni síðustu helgi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is