Barist um sæti í bikarúrslitahelginni

Handbolti

Handboltinn fer af stað í dag og það með bombu þegar KA sækir Stjörnuna heim í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins. Raunar er þetta bikarkeppnin frá síðustu leiktíð en vegna Covid var restinni af bikarkeppninni frestað til haustsins.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 18:00 í TM-Höllinni í Garðabæ og verður í beinni útsendingu á RÚV 2. Það má búast við hörkuleik enda sæti í sjálfri bikarúrslitahelginni undir. Í leið sinni í leikinn hefur KA slegið út Þór en sá leikur fór fram í febrúar en Stjarnan sló út Gróttu nú á dögunum.

KA hefur þrívegis orðið Bikarmeistari, fyrst árið 1995 og aftur árið 1996 en þriðji titillinn kom árið 2004. Á árunum 2006 til 2017 lék KA undir merkjum Akureyri Handboltafélags og komst liðið í úrslitaleikinn árið 2011 og síðast í bikarúrslitahelgina árið 2013 en það var í fyrsta skiptið sem núverandi bikarúrslitahelgar fyrirkomulag var haldið.

Það er því heldur betur kominn tími á að karlaliðið okkar tryggi sig aftur inn í Laugardalshöllina og því um að gera að fylgjast með stórleik kvöldsins, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is