Flýtilyklar
Aldís og Rakel með sín fyrstu landsliðsmörk
Kvennalandslið Íslands í handbolta tók þátt í æfingamóti í Tékklandi sem lauk í dag og átti KA/Þór alls fimm fulltrúa í hópnum. Þetta eru þær Aldís Ásta Heimisdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir, Rut Jónsdóttir og Unnur Ómarsdóttir.
Rakel Sara lék sinn fyrsta A-landsleik þegar íslenska liðið mætti B-liði Noregs en eftir hörkuleik fór Noregur með 25-30 sigur af hólmi. Ekki nóg með að leika sinn fyrsta landsleik þá skoraði Rakel Sara tvö mörk í leiknum og nýtti heldur betur tækifærið vel.
Því næst léku stelpurnar gegn Sviss og vannst þar afar sannfærandi 30-22 sigur eftir að staðan hafði verið 19-14 í hléinu. Aldís Ásta Heimisdóttir gerði sín fyrstu landsliðsmörk í leiknum en hún gerði tvö mörk og þá gerði Ásdís Guðmundsdóttir eitt mark.
Rakel Sara og Aldís Ásta hafa komið af krafti inn í landsliðið
Í lokaleiknum sem fram fór í dag lék íslenska liðið við heimalið Tékka. Tékkar eru í lokaundirbúning sínum fyrir HM og gáfu stelpurnar þessu sterka liði svo sannarlega alvöru leik. Liðin skiptust á að leiða og leiddi Ísland meðal annars 22-24 er skammt var til leiksloka. Það dugði þó ekki og heimakonur fóru með 26-25 sigur af hólmi. Unnur Ómarsdóttir gerði tvö mörk í leiknum.
Íslenska liðið endaði þar með í 2. sæti á mótinu og er það algjörlega frábært að við eigum nú fimm fulltrúa í landsliðinu og að stelpurnar séu allar búnar að sýna það og sanna að þær séu klárar í verkefnið. Það verður svo sannarlega áfram spennandi að fylgjast með framgöngu stelpnanna með landsliðinu í komandi framtíð.