KA vann fyrri leikinn (myndaveisla)

Blak
KA vann fyrri leikinn (myndaveisla)
Frábær sigur í gær! (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti HK í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki karla í KA-Heimilinu í gær. Liðin voru hnífjöfn í vetur og enduðu í 2. og 3. sæti deildarinnar og mátti því búast við hörkuleik sem úr varð en liðin hafa barist grimmt um helstu titlana undanfarin ár.

Gestirnir gerðu fyrsta stigið en í kjölfarið var það KA sem leiddi. Jafnt og þétt tókst strákunum að auka forystuna og höfðu gott tak á fyrstu hrinu. KA leiddi 20-15 fyrir lokakaflann og tókst að lokum að sigla frekar sannfærandi 25-19 sigri í hrinunni.

Hrina 1

Sama var uppi á teningunum í annarri hrinu, jafnt var í 1-1 og 2-2 en í kjölfarið var KA með undirtökin og gestunum tókst aldrei að jafna metin. Munurinn var iðulega 2-5 stig og að lokum vannst 25-21 sigur og KA því komið í kjörstöðu 2-0.

Hrina 2


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Það leit út fyrir að KA liðið myndi halda áfram að vera sterkari aðilinn í þriðju hrinu en um miðbik hrinunnar hrundi leikur liðsins og gestirnir völtuðu yfir hrinuna. Yfirvegunin sem hafði einkennt KA liðið virtist alveg horfin og tapaðist hrinan 16-25. Það þurfti því að fara í fjórðu hrinu og ljóst að KA liðið þurfti að ná að núllstilla sig.

Hrina 3

Það var jafnt á nánast öllum í fjórðu hrinu og skiptust liðin á að leiða. Spennan gríðarleg og myndaðist heldur betur skemmtileg stemning í KA-Heimilinu. HK tókst að tengja saman nokkur stig fyrir lokakaflann og virtist vera að tryggja sér oddahrinu í stöðunni 17-22. En strákunum tókst þá að koma saman ótrúlegri endurkomu þar sem þeir gerðu átta stig gegn einu og unnu að lokum hrinuna 25-23 og leikinn því samtals 3-1.

Hrina 4

Leikið er heima og heiman og ljóst að KA liðið er í góðri stöðu með sigrinum í gær. Liðin mætast í Kópavogi á miðvikudaginn og þar verður HK að sigra til að tryggja gullhrinu. Sigri KA hinsvegar er liðið komið áfram í úrslitaeinvígið. Spilamennska strákanna í gær var til fyrirmyndar og einn besti leikur liðsins í vetur. Það er vonandi að liðið sé að toppa á hárréttum tíma.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is