"Vonumst til að sjá ykkur sem flest um helgina"

Blak
Gísli Marteinn er klár í slaginn! (mynd: EBF)

Blakveisla vetrarins hefst um helgina með þremur heimaleikjum en á laugardaginn tekur karlalið KA móti Vestra kl. 15:00 og stelpurnar okkar mæta svo Álftanesi kl. 17:30. Á sunnudeginum taka strákarnir loks á móti Íslandsmeisturum Hamars klukkan 14:00.

Í tilefni leikjanna tókum við stöðuna á Gísla Marteini Baldvinssyni sem hefur verið mikill drifkraftur í karlaliði KA undanfarin ár.

Þá fer tímabilið loksins að bresta á hjá okkur í blakinu og við strákarnir erum heldur betur klárir í slaginn. Við erum búnir að vera æfa mikið og reglulega til að koma okkur í gírinn fyrir leikina og ætlum okkur stóra hluti í vetur.

Það eru nokkur ný andlit í hópnum og eru það aðallega ungir KA menn sem eru að koma uppúr yngri flokkunum og er gaman að sjá kraftinn í strákunum. Einnig hefur okkur borist leikmenn að austan, bæði frá Neskaupstað og Húsavík. Við strákarnir erum orðnir æstir í að fara byrja að spila og um helgina tökum við á móti tveimur sterkum liðum, Vestra á laugardaginn og Hamri á sunnudag.

Þrátt fyrir að við mætum þessum sterku liðum þá leggjum við okkur alla fram og berjumst allt til loka. Við vonumst til að sjá sem flesta á báðum leikjum til að styðja okkur áfram. Það er góður andi í liðinu, æfingarnar búnar að vera góðar undanfarið þannig við ætlumst til að fá góða niðurstöðu úr þessari helgi.

Hlökkum til að sjá ykkur, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is