KA vann Akureyri - KA/Þór meistarar

Handbolti

Mikið fjör var á lokadegi Norðlenska Greifamótsins í dag þar sem úrslit mótsins réðust. Hjá körlunum hófst dagurinn á leik um 5. sætið.

ÍR-HK 29-20
Fyrirfram átti maður von á að þessi leikur yrði auðveldur fyrir ÍR en HK menn létu þá svo sannarlega hafa fyrir hlutunum lengi framan af fyrri hálfleik. ÍR hafði þó frumkvæðið í leiknum og leiddi í hálfleik 13-11. Í seinni hálfleik tóku ÍR-ingar síðan öll völd á vellinum og sigldu öruggum sigri í höfn, 29-20 og lönduðu þar með 5. sæti mótsins.

KA-Akureyri 30-25
Sá leikur sem var trúlega beðið með hvað mestri eftirvæntingu var slagur norðanliðanna KA og Akureyrar sem mættust í leik um 3. sæti mótsins. Allt var í járnum fyrsta korterið og jafnt á öllum tölum upp í stöðuna 6-6. KA liðið var síðan miklu öflugra seinni hluta fyrri hálfleiksins og náði sex marka forskoti 14-8 en það var einmitt munurinn í leikhléi þar sem staðan var 16-10 fyrir KA.

Akureyri skoraði fyrstu tvö mörk seinni hálfleiksins en KA endurheimti sex marka muninn aftur. Aftur gerði Akureyri áhlaup og tókst að minnka muninn niður í þrjú mörk, 21-18 en aftur jók KA muninn í sex mörk. Síðustu tíu mínúturnar var munurinn 4 til 5 mörk og býsna sannfærandi fimm marka sigur KA liðsins, 30-25 staðreynd og þar með 3. sæti mótsins.

Mörk KA: Áki Egilsnes 9, Einar Birgir Stefánsson 5, Sigþór Gunnar Jónsson 5, Tarik Kasumovic 4, Dagur Gautason 3, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Andri Snær Stefánsson og Sigþór Árni Heimisson 1 mark hvor.

Mörk Akureyrar: Garðar Jónsson 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 5, Leo 5, Igor 4, Patrekur Stefánsson 3, Arnþór Gylfi Finnsson og Friðrik Svavarsson 1 mark hvor.

Stjarnan-Grótta 26-22
Lokaleikur karlanna var slagur Stjörnunnar og Gróttu um fyrsta sætið í mótinu. Grótta hafði frumkvæðið fyrstu fimm mínúturnar en þá snerist dæmið við þó svo að munurinn væri lengst af einungis eitt mark. Stjarnan náði mest þriggja marka forskoti og það var einmitt munurinn í hálfleik þar sem Stjarnan leiddi 14-11.

Þegar átta mínútur voru til leiksloka komu Gróttumenn með gott áhlaup og minnkuðu muninn tvívegis niður í eitt mark, 23-22 en Stjarnan kláraði leikinn með þrem síðustu mörkunum þannig að lokatölur urðu 26-22.

Mörk Stjörnunnar: Egill Magnússon 9, Leó Snær Pétursson 7, Ari Pétursson 4, Ari Magnús Þorgeirsson 2, Bjarki Már Gunnarsson, Bjarki Steinn Þórisson, Starri Friðriksson og Viktor Jóhannsson 1 mark hver.

Mörk Gróttu: Jóhann Reynir Gunnlaugsson 9, Magnús Öder 7, Sveinn Jose Rivera 4, Árni Benedikt Árnason 1 mark.

Lokastaða karlaliðanna var því:
1. sæti Stjarnan,
2. sæti Grótta
3. sæti KA
4. sæti Akureyri
5. sæti ÍR
6. sæti HK

Þrír leikir voru hjá kvennaliðunum í dag.

Afturelding – ÍR 25-26
Í fyrsta leik mættust Afturelding og ÍR og var hann afar jafn og spennandi, jafnt var í hálfleik 11-11 og hélst spennan allan leikinn. Það voru ÍR-ingar sem náðu að skora sigurmarkið á síðustu mínútu leiksins og fögnuðu að sjálfsögðu vel í leikslok.

Mörk Aftureldingar: Fanney Björk 10, Þóra Guðný 7, Selma Rut 4, Drífa Garðarsdóttir, Katrín Helga Davíðsdóttir, Brynja Ragnarsdóttir og Ósk Hauksdóttir 1 mark hver.

Mörk ÍR: Karen Tinna 6, Jóhanna Björk 4, Sigrún Ása 3, Stefanía Ósk 3, Elísabet Mjöll 2, Hildur Marín Andrésdóttir 2, Petra Waage 2, Sara Kristjánsdóttir 2, Helena Ósk og Karen Ósk 1 mark hvor.

KA/Þór – Afturelding 23-10
Fyrir leikinn var KA/Þór svo gott sem búið að tryggja sér sigurinn hjá kvennaliðunum en þær hófu leikinn af miklum krafti og var leiddu 8-3 eftir fjórtán mínútna leik en í hálfleik var staðan 11-5. Þess ber að geta að leikurinn var í styttra lagi, en leiknar voru 2 x 20 mínútur.

KA/Þór kláraði síðan seinni hálfleikinn afar sannfærandi, þrettán marka sigur í lokin 23-10.

Því miður erum við ekki með yfirlit yfir markaskorara tiltækt.

KA/Þór U – ÍR  18 - 28
Í lokaleik kvennaliðanna mættust ungmennalið KA/Þór og ÍR. Þar fóru ÍR konur með sigur af hólmi, 18-28.

Lokastaða kvennaliðanna var því:
1. sæti KA/Þór 6 stig,
2. sæti ÍR 4 stig,
3. sæti Afturelding 2 stig
4. sæti KA/Þór U 0 stig.

Liðin mættu svo á Greifann að móti loknu þar sem skemmtilegt hóf var haldið þar sem markahæstu og bestu leikmenn voru verðlaunaðir.

Jóhann Reynir Gunnlaugsson í Gróttu var markahæstur karlamegin og Áki Egilsnes KA var valinn besti leikmaður. Kristín Arndís Ólafsdóttir hjá Aftureldingu var markahæst og Ólöf Marín Hlynsdóttir KA/Þór var besti leikmaður hjá konunum.

Sigurlið KA/Þórs á mótinu


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is