Skarpi og Dagur skrifa undir 2 ára samning

Handbolti
Skarpi og Dagur skrifa undir 2 ára samning
Skarpi og Dagur verða í eldlínunni í vetur

Skarphéðinn Ívar Einarsson og Dagur Árni Heimisson hafa báðir gert nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA. Báðir eru þeir gríðarlega efnilegir og spennandi ungir leikmenn sem eru að koma uppúr yngriflokkastarfinu okkar og ekki spurning að báðir eiga þeir framtíðina fyrir sér.

Skarpi er nýorðinn 17 ára og kom inn í meistaraflokkslið KA á síðustu leiktíð. Þrátt fyrir ungan aldur var þessi öfluga vinstri skytta 20 sinnum í leikmannahóp og vakti eðlilega mikla athygli fyrir sína framgöngu. Þá hefur hann leikið lykilhlutverk í ungmennaliði KA auk þess að vera fastamaður í U18 ára landsliði Íslands en hann lék með landsliðinu á EM í sumar.

Dagur Árni verður 16 ára í nóvember og er einn af mest spennandi leikmönnum landsins. Dagur er leikstjórnandi og hefur mikla og góða yfirsýn auk þess að vera góður skotmaður. Dagur hefur komið gríðarlega vel inn í meistaraflokkinn á undirbúningstímabilinu en hann hefur farið fyrir frábæru liði 4. flokks KA sem hefur unnið allt sem hægt er að vinna undanfarin ár, þar með talið Partille Cup í Svíþjóð. Dagur er einnig fastamaður í U16 ára landsliði Íslands.

Það er hrikalega gaman að sjá þessa öflugu kappa taka næstu skref á sínum ferli með meistaraflokksliði KA í vetur og hlökkum við svo sannarlega til að fylgjast áfram með framgöngu þeirra í gula og bláa búningnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is