Ívar og Árni lánaðir austur - Árni í U17

Fótbolti
Ívar og Árni lánaðir austur - Árni í U17
Ívar og Árni verða í eldlínunni í sumar

Þeir Ívar Arnbro Þórhallsson og Árni Veigar Árnason voru á dögunum lánaðir austur í Hött/Huginn og munu þeir leika með liðinu í 2. deildinni á komandi sumri. Á síðasta ári gerðu KA og Höttur með sér samstarfssamning með það að markmiði að efla starf beggja liða og verður spennandi að sjá þá Ívar og Árna fyrir austan í sumar.

Þá hefur Árni Veigar verið kallaður inn í U17 ára landslið Íslands sem mætir Finnum í tveimur æfingaleikjum í næstu viku. Áður höfðum við tilkynnt að þeir Aron Daði Stefánsson, Mikael Breki Þórðarson og Jóhann Mikael Ingólfsson væru í hópnum og eru því nú fjórir KA menn í hópnum!

Árni sem er uppalinn hjá Hetti er 17 ára gamall og gekk í raðir KA á síðasta sumri. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann leikið sjö leiki með Hetti/Huginn í 2. deildinni en hann hefur einnig leikið fimm landsleiki fyrir yngrilandslið Íslands og gert í þeim eitt mark.

Ívar Arnbro er einn efnilegasti markvörður landsins en hann er uppalinn hjá KA og verður 18 ára í sumar. Hann lék tvo leiki með meistaraflokksliði KA á síðasta sumri, 1-0 sigur á HK í Bestu deildinni og 5-0 sigur á Uppsveitum í Mjólkurbikarnum. Hann hefur leikið 11 landsleiki fyrir yngrilandslið Íslands og ljóst að hann er klár í slaginn í meiri meistaraflokksbolta.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is