Flýtilyklar
Fjögur lið KA á bikarúrslitahelginni
Stærsta helgi ársins í blakhreyfingunni er framundan þegar úrslitahelgi Kjörísbikarsins fer fram í Digranesi í Kópavogi dagana 6.-8. mars. Karla- og kvennalið KA eru komin í undanúrslitin og ætla sér sæti í úrslitaleikjunum sem fara fram á laugardeginum.
Auk undanúrslita- og úrslitaleikja í meistaraflokki fara fram úrslitaleikir hjá U14 og U16 kvenna og eru lið KA í úrslitaleikjum í báðum flokkum. Samtals eru því fjögur lið frá KA sem munu berjast um að verða Bikarmeistarar.
Undanúrslitaleikirnir verða í beinni útsendingu á RÚV2 og úrslitaleikirnir sjálfir í beinni á aðalrás RÚV. Úrslitaleikir U14 og U16 kvenna verða hinsvegar í beinni á youtube rás Blaksambands Íslands.
Dagskrá helgarinnar hjá okkar liðum er eftirfarandi:
Fim. 6. mars 19:30 | Afturelding - KA (undanúrslit karla) - RÚV2
Fös. 7. mars 17:00 | Afturelding - KA (undanúrslit kvenna) - RÚV2
Lau. 8. mars 10:30 | KA - Þróttur F. (úrslit U14 kvenna) - BLÍ
Lau. 8. mars 13:00 | Úrslitaleikur karla - RÚV
Lau. 8. mars 15:30 | Úrslitaleikur kvenna - RÚV
Lau. 8. mars 18:00 | KA - Völsungur (úrslit U16 kvenna) - BLÍ
Á fimmtudag, 6. mars, verða undanúrslit karla leikin en KA mætir þar Aftureldingu í seinni leik dagsins klukkan 19:30. Strákarnir hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu og eru á toppi Unbrokendeildarinnar þegar aðeins ein umferð er eftir. Í hinum leiknum mætast Þróttur Reykjavík og HK, sá leikur hefst kl. 17:00.
Zdravko Kamenov, fyrirliði KA, hafði þetta að segja um helgina er hann var tekinn í spjall hjá Blakfréttum.is. "Við erum einbeittir og fullir tilhlökkunar fyrir bikarhelginni. Við spiluðum vel saman til að tryggja sæti í úrslitahelginni og góð frammistaða að undanförnu gefur okkur fullt sjálfstraust fyrir leikinn á fimmtudaginn."
"Það er mikil hvatning fyrir öll lið að ná langt í bikarnum og við erum klárir í slaginn. Umgjörðin er glæsileg og þetta er helgi sem öll lið vilja taka þátt í. Margir í okkar liði eiga eftir að upplifa það að hampa bikarnum og því viljum við breyta."
Á föstudaginn er svo komið að undanúrslitum kvenna og eiga okkar stelpur fyrri leik dagsins er þær, rétt eins og strákarnir, mæta liði Aftureldingar kl. 17:00. Margir vilja meina að hér sé um að ræða hinn eiginlega úrslitaleik en KA og Afturelding hafa einokað bikarinn undanfarin ár og mættust einmitt í úrslitaleik keppninnar á síðustu leiktíð.
Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir, fyrirliði KA, segir í samtali við Blakfréttir.is að stemningin í liðinu sé mjög góð fyrir helgina. "Stemningin er rosalega góð hjá okkur. Þetta er að okkar mati skemmtilegasta helgi ársins, þannig mjög mikil eftirvænting og spenna meðal hópsins."
Lovísa segir að helstu styrkleikar mótherjans séu sérstaklega sterk vörn og blokk. "Þetta hafa oft verið hörku leikir þegar við mætum Aftureldingu og oft erfitt að sjá fyrir um hver ber sigur úr bítum. En þær hafa mjög góða blokk sem hefur reynst okkur erfið, einnig eru þær mjög sterkar í vörn sem er gríðarlega góður eiginleiki að hafa inn í bikarinn."
Þegar spurt var um tónlistina í klefanum fyrir leiki, sagði Lovísa: "Það er ekkert ákveðið lag sem við hlustum alltaf á, en við bjuggum til mjög góðan playlista saman fyrir tímabilið og erum duglegar að taka út og setja inn ný lög það sem líður á tímabilið. En núna erum við helst að hlusta á ‘Stara.'"
Hvað geta stuðningsmenn búist við að sjá frá KA á vellinum? "Fólk má búast við að sjá okkar helsta einkenni sem er gríðarlegur liðsandi. Það hefur komið okkur gríðarlega langt síðustu ár og vil ég meina að sé helsta einkenni KA. Við erum mjög hungraðar í bikarinn í ár, þannig barátta er okkur einnig helst í huga," segir Lovísa.
"Þetta er í fimmta skiptið sem ég er að keppa í bikarhelginni, sem eru algjör forréttindi. Mín uppáhalds minning er þegar við unnum Bikartitilinn árið 2022, það er alltaf skemmtilegast að vinna spennandi leiki og sá leikur fór í oddahrinu. En það jafnast fátt við það að vera með stelpunum í KA fyrir sunnan á bikarhelginni, er alltaf ótrúlega gaman."
Eins og áður segir verða úrslitaleikir í U14 og U16 kvenna leiknir á laugardeginum og á KA lið í báðum leikjum. Ekki nóg með það en þá urðu strákarnir í U16 bikarmeistarar á dögunum og því getur KA orðið fimmfaldur bikarmeistari í ár ef allt gengur að óskum.
Úrslitaleikur U14 fer fram kl. 10:30 en þar mæta stelpurnar okkar liði Þróttar Fjarðabyggðar í úrslitum. Í kjölfar úrslitaleikja meistaraflokkanna fer svo fram úrslitaleikur U16 kvenna þar sem KA mætir Völsung í nágrannaslag en sá leikur hefst klukkan 18:00. Eins og áður segir verða báðir leikir í beinni á youtube rás Blaksambandsins.