Eiríkur S. Jóhannsson nýr formaður KA

Almennt
Eiríkur S. Jóhannsson nýr formaður KA
Eiríkur S. Jóhannsson formaður KA

Aðalfundur Knattspyrnufélags Akureyrar var haldinn í KA-Heimilinu í gær og var meðal annars ný aðalstjórn félagsins kjörin. Ingvar Már Gíslason steig til hliðar sem formaður félagsins í lok febrúar og tók Eiríkur S. Jóhannsson við embættinu tímabundið fram að aðalfundi.


Aðalstjórn KA: Vignir Már Þormóðsson, Eiríkur S. Jóhannsson formaður, Sigríður Jóhannsdóttir og Hjalti Þór Hreinsson. Á myndina vantar Lindu Ívarsdóttur.

Eiríkur var svo kjörinn formaður félagsins á fundinum í gær en hann er 25. aðilinn til að gegna embættinu. Hann var áður varaformaður félagsins og þar áður formaður knattspyrnudeildar auk þess að hafa gegnt hinum ýmsu störfum fyrir félagið. Auk Eiríks skipa þau Hjalti Þór Hreinsson, Linda Ívarsdóttir, Sigríður Jóhannsdóttir og Vignir Már Þormóðsson aðalstjórn KA. Arna Hrönn Skúladóttir er varamaður stjórnarinnar.

Þau Ingvar Már Gíslason, Pétur Ólafsson og Þorbjörg Jóhannsdóttir stigu til hliðar úr aðalstjórn og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir þeirra framlag til félagsins þó við reiknum að sjálfsögðu fastlega með að sjá þau áfram í kringum starf félagsins.


Eiríkur veitti þeim Ingvari og Þorbjörgu þakklætisvott fyrir þeirra framlag í aðalstjórn félagsins. Á myndina vantar Pétur Ólafsson en hann var vant við látinn

Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA fór yfir ársreikning félagsins en hann er að mörgu leiti sögulegur. Í fyrsta skiptið fór velta félagsins í heild yfir 500 milljónir króna en alls nam upphæðin 509.626.354 krónum. Alls var félagið rekið með 33.504.995 króna hagnaði á árinu 2021 en hluti af því má rekja til leikmannasölu knattspyrnudeildar.

KA er í raun orðið stórt fyrirtæki í Akureyrarbæ en rúmlega 80 einstaklingar fá greidd laun að einhverju eða öllu leiti hjá félaginu í hverjum mánuði. Félagið stendur afar vel, eignir félagsins eru 205.681.674 krónur og eigið fé er alls 139.863.254 krónur og ljóst að mjög gott starf hefur verið unnið undanfarin ár hjá KA.

Eiríkur S. Jóhannsson formaður félagsins flutti ársskýrslu aðalstjórnar og má lesa hana hér.

Fundarstjóri góðir fundarmenn,
Áður en ég fer yfir skýrslu stjórnar, vil ég halda í þá góðu venju að minnast látinna KA félaga sem lagt hafa sitt af mörkum til að efla félagið með stöfum sínum, þátttöku í keppnum á vegum félagsins eða stuðningi. Vil ég biðja ykkur um að rísa úr sæti, þeim til heiðurs og minningar.

Á aðalfundi KA fyrir ári síðan var núverandi stjórn endurkjörin, þ.e.a.s. Ingvar Már Gíslason, formaður, Eiríkur S. Jóhannson, varaformaður, Sigríður Jóhannsdóttir gjaldkeri, Þorbjörg Jóhannsdóttir ritari og Pétur Ólafsson meðstjórnandi. Vignir Þormóðsson var kjörinn varamaður. Auk stjórnarmanna sem kosnir eru á aðalfundi hafa formenn deilda seturétt á fundum aðalstjórnar þar sem þeir hafa málfrelsi og tillögurétt. Mæting af hálfu fulltrúa deilda er jafnan góð og iðulega mikil og málefnaleg umræða á fundum. Það er með sanni hægt að segja að góð samstaða ríki í félaginu og finnum við vel fyrir samtakamætti deildanna á stjórnarfundum okkar sem og í daglegu starfi félagsins. Meðal annars á þessari samstöðu grundvallast velgengni félagsins.

Starf stjórnar á liðnu starfsári hefur verið gott og fjölmargir fundir haldnir, bæði við fundarborðið og einnig með aðstoð fjarfundabúnaðar. Ekki er hægt að víkjast undan því að minnast á breytingar sem urðu á stjórninni nú í vetur, eða í lok febrúar s.l. þegar kjörinn formaður félagsins, Ingvar Már Gíslason, ákvað að stíga til hliðar sem formaður vegna utanaðkomandi aðstæðna. Það er mitt mat að til þessa hefði ekki þurft að koma, en ég virði þá ákvörðun sem Ingvar tók, enda hafði hann hagsmuni Ka að leiðarljósi, líkt og alltaf. Ég vil þakka Ingvari óeigingjarnt starf fyrir félagið, en hann hefur verið vakandi og sofandi fyrir stjórn félagsins undanfarin ár og lagt fram vinnu sem er langtum meiri en fólk getur gert sér í hugarlund. Hann hefur verið málsvari félagsins inná við og útá við og hefur verið eftir því tekið hversu vel hann hefur haldið á málefnum félagsins í mótbyr sem meðbyr. Gleymum því ekki að allt starf stjórnarmanna er sjálfboðaliðastarf sem einungis fær laun sín greidd í ánægju þess að leggja félaginu og samfélaginu í heild lið. Ingvar hefur fullvissað okkur um að hann muni sem fyrr leggja félaginu lið og vinna að framgangi félagsins um ókomna tíð. Fyrir það erum við þakklát.

Líkt og starfsárið 2020-2021, markaðist starf félagsins á undangengnu ári af áhrifum Covid heimsfaraldursins sem nú virðist vonandi vera í rénun. Hefur þetta sannarlega komið niður á öllu starfi félagsins. Við höfum þó haldið sjó í rekstrarlegum tilliti en klárlega hefur félagslegur hluti starfseminnar átt undir högg að sækja. Í félaginu býr nú félagsleg þrá sem bíður eftir því að fá útrás. Á s.l. vikum hefur verið stórkostlegt að sjá KA félaga mæta aftur á leiki og styrkja liðin okkar í yngri flokkum sem og meistaraflokkum. KA fólk hefur tekið yfir fjölmiðla og samfélagsmiðla reglulega og er eftir því tekið hversu mikils stuðnings félagið nýtur. Undangengnar bikarúrslitahelgar í handbolta og blaki sýna virkilega hvað KA fólk nær að upphefja þessa viðburði og styrkja greinarnar í allri umfjöllun hér innanlands.

Aftur að rekstri félagsins. Að reka íþróttafélag er alls ekki létt verk að öllu jöfnu. Almennt séð hefur KA fólk staðið vel að rekstri félagsins þrátt fyrir að oft höfum við þurft að taka á honum stóra okkar. Umfang félagsins í krónum talið hefur margfaldast á s.l. árum og telst KA vera meðalstórt fyrirtæki hér í bæ. Sævar framkvæmdastjóri mun fara yfir reikninga félagins hér á eftir. Þátttaka okkar í íþróttatengdri starfssemi bæjarins er umtalsverð, við drögum í bæinn þúsundir ferðamanna sem fylgja keppendum á mótum félagsins. Þannig eigum við þátt í að efla fyrirtækin hér í bæ sem á móti styðja við starf okkar. Við höfum fjöldann allan af starfsfólki en grunnurinn okkar er þjónusta við íbúa Akureyrar, í formi öflugs æskulýðs- og íþróttastarfs barna og unglinga og svo afreksstarfi meistaraflokka. Saman er þetta starf sem fyllir bæjarbúa stolti og veitir Akureyri auglýsingu og er vitnisburður um blómlegt samfélag hér í bæ, sem litið er til af öllu landinu. Öflugt íþróttastarf er nefnilega besta auglýsing sérhvers sveitarfélags.

Langstærsti hluti þeirra tekna sem KA innheimtir er sjálfsaflafé, þ.e.a.s um 80% heildartekna á móti framlagi og keyptri þjónustu Akureyrarbæjar. Hér er helst um að ræða æfingjagjöld, fjáraflanir flokka, aðgangseyrir á leiki, auglýsingatekjur og fengnir styrkir. Æ erfiðara er að sækja þessar tekjur en á meðan við veitum góða þjónustu og höldum uppi framúrskarandi íþróttastarfi náum við að laða að aðila sem vilja iðka sína íþrótt hjá okkur, auglýsa og styðja með fjárframlögum. Með bættri aðstöðu, keppnisvalla en umfram allt aðstöðu til að veita áhorfendum meiri upplifun á leikjum, mun félagið geta sótt meiri tekjur til rekstrar deilda sinna. Á þetta hefur félagið lagt áherslu undnfarin ár og loksins núna má segja að árangur erfiðis okkar sé að koma í ljós.

Nú er að hefjast ein mesta uppbygging á félagssvæði okkar á seinni tímum. Á næstu vikum verður gervigras á gamla gervigrasvelli okkar endurnýjað, og gamla mottan færð uppí horn þ.a. Nývangur mun frá og með vori verða lagt gervigrasi og nýtast þannig sem æfingasvæði fyrir yngstu iðkendur okkar. Samhliða þessu hefur félagið fest kaup á áhorfendastúku sem sett verður upp á pallinum sunnan við húsið og höfum við fengið leyfi KSÍ til að keppa heimaleiki okkar í Bestu deildinni þar í sumar. Er þetta fyrsti vísir að því að allar deildir félagsins eigi sér sinn heimavöll á KA svæðinu. Samkvæmt samningi sem við höfum undirritað við Akureyrarbæ og gerð hefur verið grein fyrir á s.l. félagsfundi, mun svo aðal keppnisvöllur KA í knattspyrnu verða lagður árið 2023 og stúkubygging reist 2023-2024.

Þessi framkvæmd mun lyfta öllu svæðinu okkar upp og gera allt starf okkar öflugra. Þó skal áréttað, að það er algerlega ljóst að húsnæði okkar munu ekki ráða við allan þann fjölda sem fylgir núverandi starfsemi okkar hér, hvað þá framtíðar starfsemi félagsins. Í því sambandi er rétt að minna á, að næsta verkefni á uppbyggingarlista íþróttamannvirkja á Akureyri er einmitt ný félagsaðstaða á KA svæðinu. Í yfirstandandi framkvæmdum er tekið tillit til þessa, í jarðvegsskiptum fyrir hina nýju félagsaðstöðu. Það er því áframhaldandi verkefni aðalstjórnar að hefja að nýju samtal við nýja bæjarstjórn um undirbúning fyrir frekari framkvæmdir á svæðinu og hlökkum við til þessa samtals enda hefur ríkt góður andi í samtölum okkar við fulltrúa bæjarins. Á kosningavori er þó ljóst að KA fólk þarf að hafa þessar staðreyndir í huga þegar kosið er til nýrrar bæjarstjórnar! Við skulum hafa í huga, að uppbygging á KA svæðinu hófst árið 2008 en stöðvaðist jafnharðan vegna bankahruns. Frá þeim tíma hefur upptökusvæði KA stækkað gríðarlega, en eina uppbyggingin verið gervigrasvöllur, sem ekki uppfyllir keppnisleyfi KSÍ. Félagshúsnæðið er fyrir löngu sprungið og enn vantar húsnæði fyrir aðrar deildi KA.

Röðin var svo sannarlega komin að KA og á þessum tímamótum vil ég þakka Akureyrarbæ fyrir skilning á stöðu félagsins, sem fram kemur í uppbyggingarskýrslu um íþróttamannvirki á Akureyri og uppbyggingarsamning sem undirritður hefur verið. Að sama skapi þakka ég þeim fjölmörgu aðilum innan KA sem hafa borið hitan og þungan að vinnunni innan félagsins við samningsgerðina. Á engan er hallað þegar ég nefni Ingvar fráfarandi formann og Sævar framkvæmdastjóra okkar þar sérstaklega. Á næstunni verða lögð frekari drög að teikningum af nýrri félagsaðstöðu sem byggja þarf hér upp þegar knattspyrnuvellirnir hafa verið teknir í notkun.

Það er gaman í KA. Já alveg hreint virkilega gaman. Fólk hrífst af gleðinni sem ríkir í félaginu og þeim árangri sem þannig fæst. Aldrei hef ég séð fýlda og leiðinlega aðila ná teljandi árangri!

Til okkar leita aðilar sem vilja starfa innan vébanda félagsins. Menn sækja í öflugt félagsstarf og styrka stjórnun starfsmanna okkar og þess rekstrarmódels sem við höfum sett upp innan félagsins. Nýverið var ný deild stofnuð innan KA, lyftingadeild KA og vil ég nota tækifærið hér til að bjóða lyftingafólk aftur velkomið í KA. Það verður virkilega gaman að fylgjast með hinni nýju deild sem fer skemmtilega af stað með hinu skemmtileg slagorði. „Lyftum fyrir KA“ !

Framundan eru skemmtilegir tímar. Aðalstjórn mun taka breytingum á þessum fundi og þarf ný stjórn að setja niður fyrir sig sínar eigin áherslur í reksti og skipulagi félagsins. Það krefst mikils utanumhalds að stýra félagi eins og KA er. Sinna þarf reglugerðum og tilmælum sem opinberir aðilar og íþróttahreyfingin í heild leggur á félagið, en auk þess þarf að halda vel á spilunum í rekstri félagsins og gæta að hagsmunum þess í hvívetna. Ný stjórn tekur við góðu búi, en í þeirri uppbygginu sem nú er hafin eru bæði fólgnar ógnir og tækifæri sem gæta þarf að og spila þarf úr. Staða KA er sem fyrr traust sem eitt af stóru íþróttafélögum Íslands.

Ég vil að lokum þakka meðstjórnarmönnum mínum gott samstarf. Sérstaklega þeim stjórnarmönnum sem ekki gefa kost á sér áfram, að sinni, þeim Ingvari, Pétri og Þorbjörgu. Framkvæmdastjóra og starfsmönnum félagsins fyrir samstarfið og árangursríks starf í þágu félagsins. Öllum iðkendum KA óska ég áframhaldandi velgengni og gleði. Öllu því fjölmarga stuðningsfólki okkar og velunnurum þakka ég stuðninginn.

Við höfum ætíð verið þeirrar gæfu aðnjótandi að í kringum félagið okkar starfar mikið af vönduðum einstaklingum sem eru boðnir og búnir að leggja félaginu lið þegar á reynir. Við getum verið stolt af því starfi sem unnið er innan KA og horft björt til framtíðar.

Það er gaman í KA, - áfram KA


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is