20 ár frá þriðja Bikarsigri KA í handbolta

Handbolti
20 ár frá þriðja Bikarsigri KA í handbolta
Jói og Jonni rifjuðu upp frábæra tíma í dag

Í dag, 28. febrúar, er heldur betur merkisdagur í sögu okkar KA-manna en fyrir 20 árum síðan hampaði KA sínum þriðja Bikarmeistaratitli í handbolta karla. KA mætti Fram í úrslitaleiknum fyrir framan algula Laugardalshöll en stuðningsmenn KA voru í miklum meirihluta.


Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Þóris frá bikarsigrinum góða

Þjálfari liðsins var Jóhannes Gunnar Bjarnason og fyrirliði var Jónatan Magnússon. Þeir félagar tóku smá hitting í tilefni dagsins ásamt bikarnum góða. Þá fór Þórir Tryggvason ljósmyndari yfir myndasafnið sitt og gróf upp nokkrar myndir frá þessum frábæra degi.

Bikarmeistarar KA 2004 (í stafrófsröð): Andreus Stelmokas, Andri Snær Stefánsson, Arnór Atlason, Árni Björn Þórarinsson, Bergsveinn Hjalti Magnússon, Bjartur Máni Sigurðsson, Einar Logi Friðjónsson, Guðmundur Örn Traustason, Hafþór Einarsson, Hans Hreinsson, Haukur Heiðar Steindórsson, Ingólfur Ragnar Axelsson, Jóhann Már Valdimarsson, Jónas Freyr Guðbrandsson, Jónatan Þór Magnússon, Magnús Stefánsson, Ólafur Sigurgeirsson, Páll Þór Ingvarsson, Stefán Guðnason, Sævar Árnason og Þorvaldur Þorvaldsson. Jóhannes Gunnar Bjarnason var þjálfari liðsins og Reynir Stefánsson aðstoðarþjálfari.

KA hafði töluverða yfirburði bæði innan sem utan vallar en leikurinn vannst að lokum 31-23 þar sem Arnór Atlason átti stórleik og gerði 13 mörk auk þess sem Hafþór Einarsson átti magnaðan leik í markinu og varði 23 skot. Andrius Stelmokas gerði 7 mörk, Ingólfur Axelsson 3, Sævar Árnason 3, Einar Logi Friðjónsson 3 og þá gerðu Jónatan Magnússon og Árni Björn Þórarinsson sitthvort markið.

Gríðarlegur fögnuður braust út í leikslok meðal þeirra fjölmörgu KA-manna sem höfðu lagt leið sína í Laugardalshöllina og ekki var fögnuðurinn minni heima á Akureyri en strákarnir flugu í kjölfarið heim með bikarinn og var haldin allsherjar sigurveisla í KA-Heimilinu.

KA liðið var byggt upp af ungum og öflugum KA strákum sem voru aldir handboltalega upp af Jóa Bjarna þjálfara liðsins. Það bjó gríðarlegur karakter í liðinu en þennan vetur unnust þó nokkrir leikir eftir magnaða endurkomu en liðið spilaði hraðan bolta og voru strákarnir iðulega fljótir að breyta erfiðri stöðu sér ívil.

Það má með sanni segja að KA-liðið hafi verið verðskuldaðir Bikarmeistarar þetta árið en á leið sinni í úrslitaleikinn slógu strákarnir út gullaldarlið Hauka eftir ótrúlegan leik að Ásvöllum en Haukar voru handhafar allra titlanna á þessum tíma. Eftir æsispennu vann KA 34-35 sigur þar sem hinn 18 ára gamli Arnór Atlason gerði 16 mörk auk þess sem Einar Logi Friðjónsson gerði 12 mörk en hann var tvítugur að aldri.

Eins og áður segir var meistaraflokksliðið að mestu byggt upp á ungum KA strákum og var ballið aldeilis ekki búið eftir að titillinn var í höfn því margir af strákunum áttu annan bikarúrslitaleik framundan daginn eftir þegar leikið var til úrslita í 2. flokk.

Það þurfti því að fljúga strákunum aftur suður um morguninn og undirbúa þá fyrir úrslitaleik sem var einnig gegn Fram. Leiknum lauk með sigri okkar manna 24-32 eftir að staðan hafð verið 11-18 í hálfleik KA í vil. Stefán Guðnason markvörður var valinn maður leiksins en hann átti afbragðsleik og KA því tvöfaldur Bikarmeistari á aðeins tveimur dögum!

Strákarnir í 2. flokki gerðu reyndar gott betur og hömpuðu einnig Íslandsmeistaratitlinum í lok vetrarins.

Íslands- og Bikarmeistarar KA 2004 2. flokkur karla Aftari röð frá vinstri: Reynir Stefánsson þjálfari, Haukur Steindórsson, Einar Logi Friðjónsson, Arnór Atlason, Magnús Stefánsson, Páll Ingvarsson, Jónas Freyr Guðbrandsson, Árni Björn Þórarinsson, Arnar Sveinsson sjúkraþjálfari. Fremri röð frá vinstri: Óðinn Stefánsson, Andri Snær Stefánsson, Stefán Guðnason, Atli Þór Ragnarsson, Ingólfur Ragnar Axelsson, Kjartan Þór Ingvason, Guðmundur Örn Traustason, Ólafur Sigurgeirsson.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is