Flýtilyklar
Myndaveisla frá síðasta Evrópuleik KA
KA mun leika í Evrópukeppni næsta sumar og verður það í þriðja skiptið sem KA keppir í Evrópukeppni í knattspyrnu. Það má vægast sagt segja að það sé mikil eftirvænting innan félagsins fyrir Evrópukeppninni enda verða 20 ár frá síðasta verkefni þegar kemur að Evrópuleikjum næsta árs.
Í tilefni þessa merka áfanga gróf Þórir Tryggvason ljósmyndari upp myndaveislu frá síðari leik KA og Bosníska liðsins FK Sloboda Tuzla sem fór fram á Akureyrarvelli þann 28. júní 2003. Við þökkum Þóri kærlega fyrir framtakið og hvetjum ykkur eindregið til að renna í gegnum þessar skemmtilegu myndir.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris frá leiknum
KA tryggði sér þátt í Intertoto keppninni með því að enda í 4. sæti Símadeildarinnar 2002 og mætti þar eins og áður segir Bosníska liðinu FK Sloboda Tuzla. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum í Bosníu og náðu KA-menn þar því ansi náðu góðum úrslitum.
KA byrjaði betur en heimamenn voru þó hættulegri í fyrri hálfleiknum. Þeir fengu dauðafæri fimm mínútum fyrir hlé en Sören Byskov markvörður KA bjargaði glæsilega. Sloboda sótti stíft framan af síðari hálfleik og átti meðal annars skalla í þverslá. Á 69. mínútu var einn heimamanna, Sarajlic, rekinn af velli með sitt annað gula spjald. KA komst þá betur inn í leikinn en það voru samt heimamenn sem komust yfir þegar þeir skoruðu úr vítaspyrnu, 10 mínútum fyrir leikslok.
KA-menn voru fljótir að svara fyrir sig, Steingrímur Örn Eiðsson sendi á Hrein Hringsson, sem slapp einn gegn markverði Sloboda og skoraði af öryggi, 1-1.
Hreinn Hringsson skoraði mark KA-manna í Bosníu og hér sækir hann að marki Sloboda í leiknum á Akureyrarvelli
Það var því mikil spenna fyrir seinni leiknum á Akureyrarvelli og KA-menn áttu góðan leik, einn sinn besta á tímabilinu, og voru sterkari aðilinn í heildina. Það voru þó gestirnir sem komust yfir með skallamarki eftir aukaspyrnu en KA var þrívegis nærri því að jafna í fyrri hálfleik.
Þorvaldur Makan náði síðan að skora, 1-1, með föstu skoti rétt utan vítateigs eftir að Dean Martin sendi boltann fyrir mark Sloboda og varnarmaður skallaði frá. Dedic kom Sloboda til bjargar á 75. mínútu þegar hann varði skalla Elmars Dan Sigþórssonar á glæsilegan hátt.
Í framlengingunni réð KA ferðinni framan af og Ronni Hartvig átti þá hörkuskot í þverslá. Í seinni hlutanum sótti Sloboda meira en fékk ekki umtalsverð færi.
KA-menn fagna marki Þorvaldar Makans Sigbjörnssonar í seinni leiknum gegn Sloboda Tuzla á Akureyri
Það var því farið í vítaspyrnukeppni og þar reyndust gestirnir sterkari. Landsliðsmarkvörður Bosníu, Mirsad Dedic, sá um að koma liði Sloboda áfram en hann varði þrjár spyrnur KA liðsins en Sören Byskov markvörður KA gaf honum þó lítið eftir og varði tvisvar.
Lið KA í fyrri leiknum:
Sören Byskov, Jón Örvar Eiríksson (Hreinn Hringsson 55.), Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson, Dean Edward Martin, Slobodan Milisic, Þorvaldur Örlygsson, Steinn Viðar Gunnarsson, Steinar Sande Tenden (Elmar Dan Sigþórsson 55.), Þorvaldur Makan Sigbjörnsson, Pálmi Rafn Pálmason (Steingrímur Örn Eiðsson 91.), Ronni Hartvig
Ónotaðir varamenn: Árni Kristinn Skaftason, Örlygur Þór Helgason, Þorleifur Kristinn Árnason, Jóhann Helgason
Lið KA í síðari leiknum:
Sören Byskov, Jón Örvar Eiríksson, Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson, Dean Edward Martin (Steingrímur Örn Eiðsson 60.), Slobodan Milisic, Ronni Hartvig, Steinn Viðar Gunnarsson, Steinar Sande Tenden (Hreinn Hringsson 75.), Þorvaldur Makan Sigbjörnsson, Pálmi Rafn Pálmason, Óli Þór Birgisson
Ónotaðir varamenn: Árni Kristinn Skaftason, Örlygur Þór Helgason, Elmar Dan Sigþórsson, Þorvaldur Örlygsson, Jóhann Helgason