Flýtilyklar
Kjarnafæðismótið hefst í dag, KA - Þór 2
Fótboltinn fer aftur að rúlla þegar Kjarnafæðismótið hefst í kvöld með nágrannaslag þegar KA og Þór 2 mætast klukkan 19:00 í Boganum. KA er ríkjandi meistari á mótinu og verður áhugavert að sjá hvernig strákarnir mæta til leiks í fyrsta æfingaleiknum.
KA leikur í riðli með Dalvík/Reyni, Tindastól, Völsung og svo andstæðingum kvöldsins Þór 2. Í hinum riðlinum leikur KA 2 ásamt KF, KFA, Magna og Þór en efsta lið hvors riðils fer í úrslitaleik mótsins.
Þá eru þrjú lið sem keppa í B-deild mótsins en það eru KA 3, Samherjar og venslalið okkar í Hömrunum. Það má því segja að KA tefli fram fjórum liðum í karlaflokki.
Kvennamegin leikur Þór/KA, Tindastóll, Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir, Völsungur og Þór/KA 2 í einni fimm liða deild.
Það skiptir að sjálfsögðu gríðarlega miklu máli að fá sem flesta æfingaleiki á undirbúningstímabilinu og í raun ómetanlegt að dómararnir í KDN standi alltaf fyrir Kjarnafæðismótinu sem tryggir okkar liðum æfingaleiki hér fyrir norðan.