KA sló út Dundalk! Club Brugge bíður

Fótbolti

KA gerði sér lítið fyrir og tryggði sér sæti í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildar UEFA eftir 5-3 samanlagðan sigur á Írska liðinu Dundalk. KA vann fyrri leik liðanna 3-1 á Framvellinum fyrir viku og voru strákarnir því í góðri stöðu fyrir seinni leikinn sem fór fram á troðfullum Oriel Park í Dundalk.

Dundalk er gríðarlega öflugt lið og leyndi liðið ekki vonbrigðum sínum yfir úrslitunum á Íslandi og ljóst að þeir myndu pressa okkur strax frá fyrstu mínútu til að koma sér aftur inn í einvígið. En KA liðið spilaði afar agaðan og góðan varnarleik og gaf fá færi á sér.

Ekki varð útlitið verra þegar Jóan Símun Edmundsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir KA á 13. mínútu og staðan því orðin 4-1 samanlagt. Jóan átti virkilega flottan leik og sýndi mögnuð einstaklingsgæði á köflum. En heimamenn jöfnuðu metin á 33. mínútu er John Martin átti hörkuskalla út við stöng og var staðan jöfn 1-1 í hálfleik.

Strákarnir áttu svo lengi vel í vandræðum með að halda í boltann í þeim síðari og jókst því pressa Dundalk manna ansi mikið. Jakob Snær Árnason kom inn á 61. mínútu og í kjölfarið náðu strákarnir að létta pressuna. Stuttu síðar var Jakob ekki langt frá því að koma KA aftur yfir en skot hans fór í varnarmann og þaðan í slá og yfir.

Seinna mark KA kom hinsvegar á 81. mínútu er Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði af öryggi úr vítaspyrnu sem var dæmd er Ívar Örn Árnason var felldur innan teigs. Staðan var því orðin 5-2 samanlagt og einvígið búið. Það skipti engu þó Gregory Sloggett jafnaði metin á síðustu mínútu venjulegs leiktíma, KA var komið áfram í næstu umferð og heimamenn sitja eftir með sárt ennið.

KA er því búið að slá út tvo öfluga andstæðinga í þessu fyrsta evrópuverkefni félagsins í 20 ár. Framundan er risaandstæðingur en Belgíski risinn Club Brugge tekur á móti strákunum í næstu umferð. Á síðustu leiktíð lék Club Brugge í Meistaradeildinni þar sem liðið fór alla leið í 16-liða úrslit og skildi meðal annars Atlético Madrid og Bayer Leverkusen eftir.

Verkefnið sem er framundan er því ansi krefjandi en jafnframt ljóst að það verður gríðarleg upplifun fyrir félagið okkar í heild sinni að fá þessa leiki sem framundan eru. Fyrri leikur liðanna fer fram fimmtudaginn 10. ágúst og fer hann fram í Belgíu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is